Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Qupperneq 107
Úrvinnsla orðanna
dettur hann niður á skýringu, sem hann fer að trúa á, og gerir þannig
félagslega ákvarðað vandamál að spurningu um persónueinkenni:
Kannski er ég bara ekki maður til að standa í þessu.
Hvaða vitleysa, sagði konan.
Jú, sagði hann, ég er ekki maður til að standa í þessu. (42)
Þetta verður í þýðingunni:
Kanskje eg rett og slett ikkje er mann for a greie dette.
For noko töv, sa kona.
Jo, sa han, eg er ikkje kar om d greie opp i dette. (31)
A sama hátt og konan gerir svo oft sækir hann í sig veðrið með því að
endurtaka eigin setningu, þar til hún fer „að hljóma sem særingarþula" (47).
Þetta kemur ekki fram í þýðingunni, og heldur ekki sú hugmyndafræði
þjóðfélagsins sem felst í klifuninni um „að vera maður til e-s“, og þau bæði
tileinka sér gagnrýnislaust.
Vísanir
Vísanir eða „allúsjónir“ eru venjulega skilgreindar sem „hentydninger i
litterære verker til bestemte omstendigheter, personer, uttalelser, andre
dikterverker“, þ. e. sem skírskotanir í bókmenntaverkum til ákveðinna
aðstæðna, persóna, orða eða til annarra bókmenntaverka.10) Vísanir Svövu í
Leigjandanum eru að því leyti sérstakar, að þær eru sjaldnast í einhverjar
ákveðnar og afmarkaðar aðstæður, heldur fyrst og fremst í mál. Þannig má
líta á klifanirnar, sem persónur sögunnar eru alltaf að grípa til, sem vísanir í
ákveðna tegund málnotkunar, sem er algeng í venjulegu hversdagsmáli.
Aðrar vísanir í mál eru í líkingamál biblíunnar og mál sem tilheyrir hernaði
og stríði.u) Allar eru þessar vísanir írónískar, vegna þess að milli þeirra og
efnisins er misræmi, sem svo aftur afhjúpar það bil sem er milli hefðbundins
tungumáls og raunverulegrar reynslu.12) Þær skipta því miklu máli fyrir
allan skilning á sögunni, og ekki síst á táknum hennar. Fæstum þessara
vísana hefur þó þýðanda tekist að koma til skila í þýðingunni.
Vísanir í biblíumál einkenna allan stíl sögunnar, en einna áþreifanlegastar
eru þær sem um leið tengjast ákveðnum og þekktum atburðum, eins og
vísanirnar í sköpunarsöguna og píslarsöguna. Þannig er húsbyggingunni,
eftir að hún loksins fer af stað, og geysilegri vinnu konunnar við innréttingu
heimilisins, hvað eftir annað lýst sem hliðstæðu við sköpun heimsins. I
fyrsta skipti sem þessi vísun kemur beinlínis fyrir er verið að segja frá
umskiptunum sem peningar leigjandans höfðu valdið:
241