Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Síða 7
Silja Aðalsteinsdóttir
Kónguló sem spinnur inn í tómið
Viðtal við Matthías Johannessen
Matthías Johannessen skáld og ritstjóri er fæddur í Reykjavík 3. janúar 1930.
Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1950 og hóf nám í
íslenskum fræðum við Háskóla Islands um haustið. Fyrsta veturinn var hann
þingskrifari með náminu, en 1951 réðst hann sem blaðamaður á Morgun-
blaðið. „Þetta nám þótti ekki árennilegt, nemendur áttu að bjarga sér svo
mikið sjálfir,“ segir hann, „en ég vann allan tímann með því. Þess vegna er
ég kannski svolítið harður á því að vorkenna stúdentum ekki sérstaklega."
Á fjórða námsári fannst honum komið nóg. „Steingrímur J. Þorsteinsson
prófessor tók það sem brandara þegar ég innritaði mig í lokapróf og taldi að ég
hefði eklci sótt alla tíma sem ég hefði þurft. Ég gat ekki sótt alla tíma vegna þess
að ég var á vöktum á blaðinu. En Steingrímur sætti sig við þetta og ég var svo
heppinn að standa mig alveg ágætlega í bókmenntasögu hjá honum. Steingrím-
ur varð glaður við því honum var eldd sama um nemendur sína og hafði verið
hræddur um mig. Ég man að þegar ég varð ritstjóri þá fékk ég eitt hamingju-
óskaskeyti og það var ffá mínum gamla kennara, Steingrími J. Þorsteinssyni.“
Matthías lauk námi 1955, og lokaritgerð hans, Njála í íslenskum skáldskap,
kom út 1958. Haustið 1955 hætti hann á Morgunblaðinu og fór í framhalds-
nám í almennri bókmenntasögu og leiklistarfræði í Kaupmannahöfn. Að-
alerindið til Hafnar var þó að skrifa doktorsritgerð um Grím Thomsen. Þegar
Matthías var kominn nokkuð áleiðis með ritgerðina bauðst honum von
Humboldt styrkur til Þýskalands, sem hann þáði. En þá féldc hann annað
tilboð: „Ég var beðinn um að koma aftur á Morgunblaðið, og þangað fór ég.
Það átti að vera tímabundið og ég ætlaði svo að ljúka ritgerðinni. En 1959
var ég beðinn að taka við ritstjórn Morgunblaðsins og þá hætti ég við
doktorsritgerðina. Ég vissi að þetta gæti ekld farið saman, og einbeitti mér
að blaðamennsku.“
Matthías varð yngsti ritstjóri stórblaðs á Norðurlöndum, en fyrir voru
ritstjórar á blaðinu þeir Bjarni Benediktsson, Valtýr Stefánsson og Sigurður
Bjarnason. Einar Ásmundsson var nýhættur.
Árið áður hafði fýrsta ljóðabók Matthíasar, Borgin hló, komið út, en
Matthías hefur ort ffá bernskuárum. Meðan við unnum þetta viðtal fann
hann í gömlum plöggum afmælisdagabók sem hann fékk þegar hann varð
13 ára. Við afmælisdaginn hans er þetta erindi Þorsteins Erlingssonar:
TMM 1996:3
5