Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Side 10
þú
ert morgunblað
og þeir senda þig upp úr hádegi
til ftsksalans á framnesvegi
sem les þig með peningasvip
áður en hann vefur þig utan um saltaðar kinnar
svofrúin í ncesta húsi
hafi eitthvað til að setja í öskuna
„Sambúðin gat verið erfið. Skáldið naut þó stundum ritstjórans og hefði
stundum mátt vera þakklátara fyrir það. Ef til vill hefði ég að öðrum kosti
orðið eins og þurrkuð jurt í miðri bók, en þess í stað hef ég vaxið í alls kyns
umhverfi og með alls konar litbrigðum. í smásögunni Hvíldarlaus ferð inn í
drauminn í samnefndri bók er ég að fjalla um sambúð skálds og ritstjóra. Úr
áreiti og ofnæmi sem sprettur úr ofurviðkvæmni, tilfinningalegum sársauka,
úr reynslu úr æsku og tilhneigingu til þunglyndis öðru hverju — úr þessu
sprettur skáldskapurinn. Og eiginlega man ég ekki eftir mér án þess að vera
að yrkja.“
Þó varstu 28 ára þegarþú gafst útfyrstu bókina þína.
„Þegar ég var drengur las ég geysilega mikið af skáldskap. Ég var búinn að
lesa Ibsen meira og minna innan við 18 ára aldur. Ég kunni ótrúlega mikið
í Jónasi og þessum gömlu skáldum, sökkti mér niður í þau og fékk mikla
andlega svölun af að vera í þeirra samfylgd. Síðan þegar ég er kominn í
háskóla þá fer ég að fylgjast með nýjungum í skáldskap, heillast af þeim,
dragast að Steini mjög sterklega og atómskáldskap. Þá fer ég að gera mér
grein fyrir því að mig langar ekkert til að vera í jakkafötunum sem gömlu
skáldin voru í, ég vildi fá nýja múnderingu. Ég sá að þessi gömlu föt voru
orðin heldur snjáð og slitin. Það sem ég var búinn að yrkja það hentaði mér
ekki lengur.“
Ljóðin í Borgin hló eru þá ný, ekki safn frá mörgum árum?
„Þegar ég fór til Kaupmannahafnar þá átti ég þykkt ljóðabókarhandrit en
hugsaði með mér: ég ætla ekki að gefa þetta út, ég ætla heldur að sjá til. Ég
var kominn með gott vit á bókmenntum og meðvitaðan smekk, og ég vissi
að þetta var liðin saga sem ekki átti að fara á prent. Handritið er til en ekkert
af því hefur komið út.
Ég tók mikinn þátt í að gleðjast með öðrum skáldum sem voru að gefa út
á þessum árum, til dæmis atómskáldunum og Gunnari Dal. Ég las ljóð
Anonymusar í Tímariti Máls og menningar, sem kom svo í ljós að voru eftir
Jóhannes úr Kötlum. Allt slíkt var svo spennandi. Svo umgengumst við
Hannes Pétursson nokkuð mikið á vissu tímabili og ég gladdist yfir hans
skáldskap.
Ég var ekkert upptekinn af mínum skáldskap á þessum tíma. Ég ætlaði
ekkert endilega að verða skáld, ég varð bara að fá að yrkja.
8
TMM 1996:3