Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Síða 56
hefðbundnu guðfræði, að nýjum og vaxandi vísindum, ekki síst sífellt rót-
tækari kenningum náttúruvísinda og heimspekinga um upphaf lífs og eðli
mannsins. Heimsmyndin var skyndilega komin á fleygiferð eftir kyrrstöðu
undangenginna alda og að mörgu leyti kristallast vandi trúhneigðra
menntamanna í hinni guðfræðilegu rökræðu sem kallar til sín krafta flestra
helstu heimspekinga aldarinnar. Heimspekingar upplýsingartímans höfðu
áður spurt nýrra spurninga um samband guðs og manns, og m.a. fór á þeim
tíma að bera á togstreitu trúar á opinberunina annars vegar og skynseminnar
hins vegar, sem varð svo megindeiluefni guðfræðinga á 19. öld.3
Á rómantíska tímanum sem við tók hafði framlag þýska guðfræðingsins
Friedrich Schleiermachers (1768-1834) mikil áhrif á alla guðfræðilega um-
ræðu. í meginverki sínu, Der christliche Glaube (1821—22), leggur hann
áherslu á sjálfstæði trúarinnar í andlegu lífi. I trúnni, sem er æðsta stig
mannlegrar tilveru, upplifi maðurinn þann guð sem er allsstaðar að verki í
náttúrunni. Schleiermacher talaði líka um ólíka tilfinningu og skynjun hvers
og eins á guðdóminum sem væri jafnrétthá. Meðal annars vegna þessa og
skrifa sinna um upplifun guðs í náttúrunni varð Schleiermacher eins konar
andlegur guðfaðir hinna þýsku rómantísku heimspekinga og kom talsvert
við sögu Jena-hópsins í þýskri rómantík.4 Augljóslega ber guðfræði
Schleiermachers sterkan keim af algyðistrú (panþeisma), en jafnframt má
segja að í því sem snýr að túlkun heilagrar ritningar leggi Schleiermacher
minna upp úr mikilvægi upprisunnar og friðþægingarinnar, en þeim mun
meira upp úr Kristi. Þjáningar hans á krossinum, dauði og upprisa eru ekki
kjarni málsins, að mati Schleiermachers, heldur Kristur sem fyrirmynd í lífi
sínu og persónu. Hann hneigist sumsé til þess að skilja og túlka frásagnir
Biblíunnar sem táknrænar í stað bókstafstúlkunar. Af þessu leiddi líka að
Schleiermacher lagði höfuðáherslu á Nýja testamentið. Með þessum nýju
áherslum hafði Schleiermacher gífurleg áhrif og afleiðingarnar urðu geysileg
gerjun í allri guðfræðilegri umræðu.5
Áhrifamestur heimspekinga á fyrri hluta 19. aldar var G.W. Friedrich
Hegel (1770-1831), þótt áhrif hans hafi fjarað út skjótar en nokkurn sam-
tímamanna hans hefði ugglaust órað fyrir, svo mjög sem Hegel var dýrkaður
á sinni tíð.6 Andstætt Schleiermacher og rómantískum heimspekingum, sem
töluðu urn tilfinningu fyrir guðdómnum, taldi Hegel hið trúarlega birtast í
hugsun mannsins. Hegel gengur út frá skynseminni og reisir sitt mikla
kenningakerfi um eðli tilverunnar á skynsemi og rökhyggju. Hin umfangs-
mikla tilraun Hegels til þess að skýra kristna trú á vitsmunalegan hátt hafði
gífurleg áhrif á guðfræðinga og flesta menntamenn á sínum tíma og þeir
voru ófáir sem töldu hann hafa leyst vanda guðfræðinnar í eitt skipti fyrir
öll.7
54
TMM 1996:3