Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Síða 99
frelsisþrána. Síst af öllu hann, með alla sína hæfileika. Hann var töfra-
maður þegar orð voru annars vegar, þú veist það vel. Manstu eftir öllum
litlu ljóðunum, sem hann orti til þín? Þau hrifu þig, var það ekki?
Veslings Anna Hathaway, aumingja gamla konan! Ég vorkenni þér,
litla og lotna kona. Eins og þú hafir ekki lifað næga smán, þótt þú
þurfir ekki að þvo larfana af annarra börnum núna. Og hvar eru þín
eigin börn? Sonur þinn Filipus er alræmdur í bænum; járnsmiðurinn
sem drekkur of mikið á kvöldin, lemur börnin sín og formælir móður
sinni. Og hinn sonurinn, sonur ykkar, taktu eftir því, ykkar beggja,
hann Hamnet litli. Blessuð sé minning hans. Manstu hve þú grést,
þegar plágan hreif hann á brott? Óréttlæti þessa heims. Hann, svo
fríður og hvers manns hugljúfi, numinn burtu í blóma æskunnar, bara
ellefu ára gamall. Gráttu ekki, Anna, tárin fá ekki fært hann til lífsins.
Júdit er sú eina sem hefur verið þér góð; hún hugsar þó um þig. Hin
stelpugálan, hún Súsanna, hún er á bandi föður síns og gætir eigna
hans hér í Stratford. Hún giftist líka þessum læknisuppskafningi í
trássi við vilja þinn. Manstu hví þú lagðist gegn ráðahagnum? Manstu
það ekki? Jú, auðvitað, slíku gleymir enginn svo auðveldlega. Af því
að sá orðrómur var á kreiki að hann væri af gyðinglegum uppruna.
Já, Gyðingur! Það var meiri vanvirða en þú hefðir nokkurn tíma þolað.
Bölvaðir séu allir Gyðingar! Þessi landlausi lýður, þessi réttdræpi skríll,
sem er sekur um píslir lausnarans — já, signdu þig, Anna, signdu þig.
Aurapúkar og morðingjar, óalandi og óferjandi...
Vertu róleg, Anna, vertu róleg. Þetta fólk er ekki orsök smánar þinnar
og skammar. Það er eiginmaðurinn sem yfirgaf þig svo ungur; sá sem
ætlaði sér að sigra heiminn og gerði það. Og hann vogaði sér að snúa
hingað heim til Stratford aftur, hnarreistur á gæðingi sínum, með fína
svarta kápu á herðum. Frægasti sonur þorpsins, kóngsins maður, sonur
Jóns gamla Shakespeares. Og nú situr hann yfir á Nýjasetri og grúfir sig
yfir lögsóknir, reiðubúinn til að græða hvar sem færi gefst. Skildingur
hér og skildingur þar. Sá þykir mér borubrattur að snúa aftur heim eftir
allt sem hann gerði þér. Þú ættir þó að fá að sitja við borð hans.
Nei, Anna, horfðu á hina hliðina. Hann er orðinn feitur og hálf-
sköllóttur, og illar tungur herma að hann sé að tærast upp af sárasótt.
Hann er rótin að öllu þínu böli. Hann hljópst á brott og skildi þig eftir
smáða, athlægi allra kvenna í Stratford: Anna hin yfirgefna, Anna hin
eina, Anna sem hélst ekki á neinum karlmanni. Já, þær hæddu þig og
TMM 1996:3
97