Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Side 117
honum eða hann býr til eða lagar til með aga og þjálfun. En er það sem býr
í honum andi guðs?
Það veit enginn. Líklega býr í honum, líkt og í öðrum, arfleifð mannkyns-
ins, minnið sem er í líkamsfrumunum, einkum í heilanum. En hvers vegna
brýst þetta fram í líki listaverka aðeins hjá örfáum, ekki öllum, ef það á rætur
að rekja til arfleifðar mannkynsins? Það veit ég ekki. Hitt þykist ég vita, að
leynda minnið líður fram í hugann vegna þess sem kalla mætti klifandi nið.
Sumir segja að hann sé trúarþörfin. Það veit ég ekki. En hvað sem niðurinn
kann að vera beinist hann fráleitt að ákveðnum guði með krafti bæna eða
að vissu pólitísku valdi, þó hægt sé að beygja og nota hann í lofgerðir. Kannski
er hæfileikinn til að iðka listir þörf veiðimanns, listamaður veiðir óljósar
hugmyndir og banar þeim í verkum sínum. Hver listamaður hlýtur að
kannast við hvernig hann eltir hugmyndir. Ýmist leynt eða ljóst reynir hann
að hremma og færa þær í viðunandi búning en háðan tíðaranda og breyt-
ingum. Umbrot í listum og búningar þeirra eru háð tíma og fagurfræðilegu
viðhorfi hverju sinni, en hugmyndirnar og innihaldið eru nokkurn veginn
stöðugt eins, stíllinn breytist og hvort tveggja er á vissan hátt í feluleik við
fegurðarskynið, til þess að hægt verði að skynja hugmynd og innihald á
hverjum tíma með sérstökum hætti eða í viðeigandi stíl.
Sömu viðfangsefni skjóta endalaust upp kollinum úr djúpi tíma og
kennda, eru færð í listaverk um stund og þykja fögur eða ljót, en sökkva síðan
aftur í djúpið með einkennilegum og órannsökuðum hætti. Þess vegna er
kannski ekki fegurð eða ljótleiki sömu atriða það sem gerir okkur sífellt
reiðubúin til að taka við þeim eins og einhverju nýju heldur feluleikur
formanna. Formin endurnýjast ekki fyrir opnum tjöldum heldur í ósýnileik-
anum, og viðfangsefnin eru þar síendurtekin. Svo kannski eru þau sígild á
sama hátt og líkamsformin sem við gerum bærileg með því að breyta um
klæðnað. Nakinn maður yrði óþolandi til lengdar. Fötin voru fundin upp til
þess að hægt væri að ímynda sér líkamann undir þeim.
f þessu efni getum við, góðu heilli, skipt um skoðun og breytt um smekk,
annars væri lífið og heimurinn óbærileg kvöl. Okkur yrði umhverfið leitt ef
það breytti aldrei um svip eða birtu, lit og stíl. En þannig er heimur okkar
að verða vitsmunalegur og einlitur, einhæfúr og samræmdur, þótt við freist-
umst til að líta fram hjá þróun hans og viðurkennum ekki að sökum
hugmynda okkar um jöfnuð viljum við að allt verði eins, en okkur hrýs
jafnframt hugur við afleiðingunum. Við viljum ekki að hugmyndunum verði
að ósk sinni, hvorki tilfinninga- né fagurfræðilega séð. Með því móti mætti
auganu hvarvetna nákvæmlega það sama.
Kvöl mannsins í samtímanum stafar ekki af ótta í venjulegum skilningi,
heldur af því að vélræna minnið hefur náð völdum í næstum öllu sem varðar
TMM 1996:3
115