Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Síða 122
henni. Málverkið var að sjálfsögðu ekki náttúran sjálf, því hvort um sig laut
sérstökum lögmálum. Það sem er viðeigandi í náttúrunni er oft óviðeigandi
á málverki eða í skáldskaparmáli, listrænt séð. í sögunni skiptir mestu máli
að Turner hefur málað hugarsýn fremur en það sem hann sá með berum
augum. Hann sagði ekki: „Fagurt er óveðrið, blossar og úfin ský og úr
póstvagninum mun ég hvergi fara.“ í staðinn fór hann og skapaði óhlut-
bundna og algilda, listræna náttúru.
Þá vaknar spurning um hvað fegurðin kunni að vera. Hún er svo mikilvæg
að ég verð að nefna jarðneskara dæmi en um listmálara. Ég veit ekki hvort
allir hafa orðið fýrir eftirfarandi reynslu, en dæmið má ekki einskorða við
atburðinn, heldur á það að fjalla um fagurfræðilega reynslu í víðri merkingu.
Við skulum gera okkur í hugarlund að Jói hafi farið á dansleik, ekki í
sérstökum tilgangi. Þetta var á laugardegi og ekkert við að vera heima, annað
en sjónvarpið og bækur sem hann nennti ekki að lesa. Honum fannst efnið
vera ljótt og leiðinlegt. Þetta er piltur sem sækir í fjör og að fá sér í glas.
Nú er hann á dansleiknum og skammt frá borðinu kemur hann auga á
stúlku. Honum líst ekki vel á hana í fyrstu, vegna þess að hún er ekkert lík
mömmu hans. Hann fær sér í glas. Þegar hann er kominn niður í hálft annað
tekur hann eftir að honum líst betur á stúlkuna. Hún fer að líkjast mömmu
hans og föðursystur. Á henni hefur hann haff dálæti, hún gaf honum gotterí
þegar hann var krakki, en núna gefur hún honum aukatæki við tölvuna. Um
þetta er Jói að hugsa þangað til hann veit að hann hefur aldrei séð fegurri
stúlku og segir henni það. Hún dregur ekki í efa þann fagurgala og fer með
honum heim upp á ekkert annað, enda er slíkt samkvæmt siðfræði og
fegurðarskyni beggja að ef einhver hrósar öðrum eða fái maður hrós er
sjálfsagt að halda upp á það með rúmferð. Þau hugsa ekkert um afleiðing-
arnar.
Þegar Jói vaknar næsta morgun sér hann sér til skelfmgar að við hlið hans
sefur með snörl í nefi kerling sem hann hryllir við, eins og hann hefði lagst
með föðursystur sinni. Hann skilur ekkert í þessum misskilningi. Nývakn-
aður ákveður smekkvísi hans að konan sé herfa og hann vekur hana til þess
eins að reka hana á dyr. Konan vaknar og fellst ekki á nýtt fegurðarskyn Jóa.
Hún minnir hann á það að fyrir nokkrum klukkustundum hafi hann sagt
að hún væri fegursta stúlka í heimi og hún hafi hvorki getað elst né orðið ljót
á jafn skömmum tíma. Jói álítur að hann sé laus allra mála, vegna þess að
hann var drukkinn og vissi hvorki hvað hann sagði né gerði eða sá. Nú
harmar konan að hún skuli ekki eiga orð hans og heitstrengingar á segul-
bandi, til að sanna að hún hafi rétt fyrir sér, og íhugar hvort sé orðið of seint
að kæra hann fyrir nauðgun, hún geti þá hefnt sín og haft að minnsta kosti
eitthvað upp úr mótsögnunum í smekk Jóa, hún eigi það skilið orðin næstum
120
TMM 1996:3