Tímarit Máls og menningar - 01.06.1999, Blaðsíða 29
MINNISVARÐI PÚSHKÍNS
kunni að gjöra alla hluti nýja, hann losaði okkur við þyngsli og tilgerð þess
skáldskaparmáls sem rússneskur kveðskapur hafði áður burðast með. Hann
skrifaði skáldsögu í ljóðum sem ásamt nokkrum smásögum hans urðu okk-
ur fordæmi og upphaf gullaldar í rússneskri skáldsagnagerð. Gogol hélt því
fram að Púshkín hefði gefið sér hugmyndir bæði að leikritinu Eftirlitsmað-
urinn og skáldsögunni Dauðar sálir. Tolstoj sagði það hafa orðið sér mikil
hjálp við að koma sér og lesendum umbúðalaust inn í heim Önnu Karenínu
hvernig Púshkín byrjar stutta sögu: „Gestirnir höfðu allir safnast saman í
sumarhúsinu.“ Dostojevskíj hélt því ffam í frægri ræðu að án Púshkíns hefði
sú fylking merkishöfunda sem á eftir honum fór aldrei orðið til.8
Tilraunir til föðurmorðs eru algengar í bókmenntasögunni eins og menn
vita: nýjar kynslóðir reyna að hrista af sér ok genginna snillinga með því að
gera lítið úr þeim. En þótt meistarar í ósvífni eins og rússneskir fútúristar
vildu „kasta Púshkín og Tolstoj fyrir borð á gufuskipi samtímans,"9 tóku
þeir fljótt Púshkín sjálfan í sátt. En snerust þeim mun harkalegar gegn þeim
sem vildu fela skáldið snjalla á bak við „sýnisbókaglansinn" (Majakovskíj)
eða gera úr því strangan heimiliskennara fyrir illa upp alin ungskáld. „Berjið
ekki á mér með Púshkín / ég lem ykkur með honurn" yrkir Marína Tsveta-
jeva.10 Bæði hún og Majakovskíj gerðu Púshkín að vopnabróður í baráttu
fyrir endurnýjun skáldskapar sem og Boris Pasternak, sem byltingarvetur-
inn 1918 finnur sér „á grimmri öld“ athvarf í tilverunni með því að yrkja sjö
kvæða bálk um Púshkín, „Þema með tilbrigðum“(Tema s variatsijamij.11
Allar listgreinar vildu eiga Púshkín: Ilja Repín, Kramskoj, Vrúbel og ótal
aðrir myndskreyttu útgáfur verka hans eða þáðu af honum efni í málverk og
höggmyndir. Öll nafnkennd tónskáld sömdu lög við kvæði hans eða breyttu
söguljóðum hans í óperur - þeirra á meðal Tsjajkovskíj (Jevgeníj Onegín,
Spaðadrottningin), Mússorgskíj (Boris Godúnov) og Glínka (Rúslan og
Ljúdmíla).12 Á sovéttímanum einum voru settir á svið a.m.k. sex balletar
sem samdir eru upp úr verkum hans.
Og menn vildu ekki aðeins eiga hlut í Púshkín, menn vildu eigna sér hann,
skipa honum í lið með sér- hvernig gat öðruvísi farið? Róttækir Rússar vildu
helst gera hann að uppreisnarmanni: hann féll í ónáð og útlegð, hann var
vinur dekabrista og orti til þeirra. Á sovéttímanum létu Púshkínfræðingar
einatt sem þjóðskáldið hefði verið fyrirrennari marxista í skörpum skilningi
á bændauppreisnum og hugarfari stétta. Aðrir vildu gera hann að ábyrgum
þegn sem þroskast frá bráðlæti og ungæðingshætti til hófsemdar og virðing-
ar fyrir nauðsynjamálum ríkisins - eins og lofkvæði hans um afrek Péturs
mikla sýndu best. Dostojevskíj sagði að Púshkín væri „eina skáldið í heimin-
um sem hefur gáfur til að breyta sér í menn af framandi þjóðerni“ og vildi
þar með gera hann að staðfestingu á eigin hugmyndum um að Rússum væri
TMM 1999:2
www.mm.is
27