Tímarit Máls og menningar - 01.06.1999, Blaðsíða 52
JÓN ÓSKAR
Ég sagði við sjálfan mig: Þú ert ungur og rólegur og þú ert marxisti
og hugsar vísindalega. Þú getur horft á föður þinn deyja, án þess þú
bliknir. Söguleg þróun. Allt er söguleg þróun. Einnig þetta.
Um miðja nótt vaknaði faðir minn af dvalanum, settist fram á rúm-
stokkinn og strauk um kvið sér og sagði:
Ég skil ekkert í þessu.
Ég skil það ekki heldur, sagði móðir mín sem hvarflaði augunum í
ráðaleysi, því við gátum ekkert gert nema horfa á þetta vanmegna og
óska þess að hann missti aftur meðvitund og meðan þetta varði sá ég
ekki fyrir mér fótleggi stúlkunnar, en þegar faðir minn var aftur hnig-
inn í ómegin, leit ég út að glugganum einsog til að anda léttara og þá sá
ég, að farið var að skíma af degi, og um leið sá ég fallegt andlit
stúlkunnar og samúðina í augum hennar og síðan fagurgerða fótleggi
hennar, þegar hún gekk út úr lyftunni.
Ég stóð við fótagaflinn á rúmi föður míns og horfði á hann, en hann
raknaði ekki framar við. Orðin „Ég skil ekkert í þessu“ voru síðustu
orð hans í þessu lífi. Hann lá nú kyrr, en í andlit hans voru sífellt að
koma kippir eins og krampadrættir og ýmist var ég að horfa á þessa
kippi eða ég var að horfa til hliðar á gluggann, þar sem skímdi af nýjum
degi og ég sá ævinlega fagurskapaða fótleggi stúlkunnar, og síðan sá ég
andlit föður míns sem herptist saman einsog hann væri að taka and-
vörpin í óskaplegum sogum og móðir mín kom inn grátandi og gekk
út að glugganum og leit út í morgunskímuna og til himins og sagði:
Hvers vegna getur þetta hjarta ekki hætt að slá?
Og ég leit á hana, þar sem hún stóð við gluggann og ég þagði, en um
leið sá ég hjúkrunarkonuna (sem ef til vill var engin hjúkrunarkona)
ganga út úr lyftunni og ég sá fegurð hennar og þróttinn í hreyfingum
hennar, og ég flýtti mér að líta aftur á föður minn, og þá sá ég óskaplega
kippi fara um andlit hans, einsog hann væri að reyna að losna við eitt-
hvað eða losna úr einhverju, en gæti það ekki, og ég leit aftur upp og að
glugganum og sá móður mína ganga frá glugganum grátandi og út úr
herberginu, en ég sá fætur stúlkunnar sem var að ganga út úr lyftunni
um leið og ég sá, að loksins var faðir minn að taka andvörpin - síðustu
andvörpin.
Móðir mín kom inn í því bili og var grátandi, en ég felldi ekki tár.
Hún gekk að rúminu og lokaði augum föður míns.
Guði sé lof, að þessu er lokið, sagði hún og grét ekki lengur.
50
www.mm.is
TMM 1999:2