Tímarit Máls og menningar - 01.06.1999, Blaðsíða 116
Hermann Stefánsson
Skáldskapur á skökkum stað
Um falsanir og frummyndir
„Had I been free I could have chosen not to be me.“
Robert Wyatt
1
Pierre Menard er rithöfundur sem tekur sér það verkefni fyrir hendur að
endurskapa skáldverk Cervantesar um Kíkóta; Menard, sem er tuttugustu
aldar rithöfundur og persóna í sögu eftir Jorge Luis Borges,1 hyggst ekki um-
rita Kíkóta heldur skrifa verkið upp á nýtt. Hann vill ekki skapa Kíkóta vorra
tíma heldur Kíkóta sjálfan, skrifa verkið sjálft. Mikil undirbúningsvinna fer í
ritunina; Menard er lengi að upphugsa hvernig skrifa skuli Don Kíkóta á
nýjum ritunartíma og útgangspunktur hans er sá að hann verði á vissan hátt
að vera Cervantes. Hann þarf að þekkja 17. aldar spænsku til hlítar, endur-
heimta kaþólska trú, berjast gegn márum eða tyrkjum og gleyma sögu Evr-
ópu frá 1602 til 1918; með öðrum orðum: að ummyndast í Miguel de
Cervantes. Með þessari aðferð ætlar hann að rita nýjan texta: ekki eftirlík-
ingu heldur texta sem væri orð fyrir orð og línu fyrir línu hliðstæður texta
Cervantesar.
Sögumaður og söguhöfundur Borgesar er fullur aðdáunar á ætlunarverki
Menards vinar síns sem er dáinn þegar þarna er komið sögu, án þess að hafa
klárað sinn Kíkóta. Texti Borgesar er fræðitexti að forminu til; Þessa grein
bókmennta fann Borges upp, smásöguna sem þykist vera fræðigrein eða rit-
dómur um bók sem er ekki til. Borges vegur í verkum sínum salt milli sann-
fræði og skáldskapar svo lesandinn gæti freistast til að halda að um ritgerð sé
að ræða en ekki smásögu. En undir lok smásögunnar/greinarinnar um Pierre
Menard, höfund Kíkóta er birt textabrot úr verki Pierre Menards og borið
saman við sama texta í útgáfu Cervantesar. Þó að textarnir innihaldi sömu
orðin, segir sögumaður, er texti Menards næstum óendanlega mikið ríkari.
Stíllinn er gagnólíkur; stíll Menards er framandi og tilbúinn, ólíkt stíl
Cervantesar sem höndlar auðveldlega tungu síns tíma. Textarnir fjalla um
mannkynssöguna, sannleikann og söguna, og hugmyndir tuttugustu aldar
114
www.mm.is
TMM 1999:2