Tímarit Máls og menningar - 01.12.1999, Blaðsíða 109
RITDÓMAR
konu, Delphine, og samvistir þeirra á
litlu hóteli við sjávarsíðuna kallast á
skemmtilegan hátt á við lokrekkjusenu
Egils sögu. Þau loka sig inni, stunda ásta-
líf og drykkju, og saltbragðið af líkama
konunnar minnir Viktor á söl. . . og
þannig tengjast þessi tvö atriði þó ólík
séu í grundvallaratriðum.
Þótt Delphine reynist ekki hafa þann
sterka karakter sem Þorgerður Egilsdótt-
ir býr yfir hefur henni, óafvitandi, tekist
að vekja lífsþorsta Viktors og um leið
endurvekur hún sköpunargleði hans og
orku: „Ég finn til djúprar þakklætis-
kenndar. Sterkari en söknuðurinn. Þakk-
lætiskenndar að hafa kynnst lífinu aftur,
verið minntur á unaðslegan lífsflaum-
inn.“ (182) Viktor finnur þá leið sem
hann hefur leitað að myndverki sínu,
innblásinn af saltbragði og ilmi konunn-
ar og hafsins. Hann getur snúið til baka
til íslands, tekist á við sorg sína og missi,
með myndverkið í farangrinum; minnis-
varða um látna systur, hans sáttargjörð
við lífið.
Parísarlíf
Sá þráður sem hér hefur verið rakinn
myndar umgjörð um frásögnina í París-
arhjóli. En milli upphafs og endis þess
þráðar fléttast lífleg ffásögn af sumar-
langri dvöl Viktors í borginni sem hann
bjó í sem barn með foreldrum sínum og
tveimur systrum. Og inn í þá frásögn
fléttast svipmyndir úr fortíðinni, myndir
af fjölskyldulífi sem ekki var alltaf eins og
best varð á kosið, mynd af Viktori sem
barni og ungum uppreisnargjörnum og
uppátektarsömum listamanni sem átti í
útistöðum við föður sinn en elskaði syst-
ur sína meira en aðra. Þá systur sem hann
syrgir í París.
í frásögninni fléttast fortíð og nútíð
sífellt saman á áreynslulausan hátt, text-
inn ber augljós merki ljóðskáldsins Sig-
urðar Pálssonar, er myndríkur og ljóð-
rænn á köflum og dramatísk uppbygging
og lipurleg samtöl minna á að hér er
einnig leikskáld á ferðinni. Skáldsagna-
formið virðist liggja vel fyrir Sigurði ekki
síður en hið lýríska og hið dramatíska
form.
Það er helst í þeim þræði sögunnar
sem snýr að Parísarlífinu sjálfu sem frá-
sögnin verður endaslepp. Viktor kynnist
dularfullum náunga, Alex að nafni, sem
er nágranni hans í Rue du Regard þar
sem hann leigir sér herbergi. í gegnum
Alex kynnist Viktor síðan ýmsum fleiri
persónum, fallegum konum og heim-
spekilega þenkjandi körlum. Alex er
reyfarakennd persóna og virðist flæktur
inn í glæpsamlegt athæfi og hápunktur
þeirrar sögu er æsilegur bílaeltingaleikur
þar sem Alex, Viktor og Delphine sleppa
naumlega undan - að því er virðist -
harðsvíruðum glæpamönnum á eitur-
grænum Mercedes Benz sem endar með
„tryllingslegum eldglæringum á brúar-
stólpa" (167). Mér er ekki ljóst hvaða
hlutverki þessi þáttur sögunnar gegnir
fýrir heildina og finnst hann fremur
veikja hana en styrkja. Hann er, eins og
áður segir, endasleppur, það vantar á
hann bæði haus og sporð.
Textatengsl
Hins vegar má vel vera að þetta reyfara-
kennda frásagnarbrot sé þáttur í tilraun
höfundar til að stefha saman ólíkum
bókmenntaformum í einn (póstmód-
ernískan) texta því í Parísarhjóli koma
saman Islendingasaga, ljóðrænir, leik-
rænir og epískir þættir, að ógleymdum
hinum myndræna (myndlistar) þætti
sem verkefni Viktors snýst um. Vera
kann að höfundur vinni hér út frá texta-
tengslahugtakinu þar sem ólíkum form-
um er stefnt saman til að mynda nýtt og
ferskt form.
TMM 1999:4
www.mm.is
107