Tímarit Máls og menningar - 01.09.2000, Blaðsíða 23
STÓRSKÁLD OG SMÁÞJÓÐ EIGAST VIÐ
Laugardagurinn kom og ég gekk upp
Varðagötuna og inn í hús skáldsins þaðan
sem öll Þórshöfn sést út um gluggana eins
og leikfangamódel af skáldsöguheimi.
William stóð í dyragáttinni þegar ég
kom, greip um hendurnar á mér og dró
mig inn í ganginn fyrst og þaðan inn í
stofu, stillti mér þar undir bjart loftljós,
gekk tvo hringi í kring um mig og sagði
svo:
- Ja hérna, þú ert alveg eins og hann
Stígur bróðir... nei annars. Þú ert alveg
eins og hann afi var. Sveimér þá, það er
eins og hann afi minn væri kominn í
heimsókn. Viltu ekki sérríglas.
Síðan þá hefur mér fundist ég vera afi Williams Heinesens. Og það er að vísu
nauðsynleg tilfinning fyrir þýðanda að þykjast vera afi höfundarins, sem verið
er að þýða. Og ég er heldur ekki frá því að William hafi geymt þetta með sér líka
því mörgum árum seinna var ég aftur í heimsókn á Varðagötunni. Þá kom þar
danskt fj ölmiðlafólk og hann kynnti mig fyrir þeim með eff irfarandi orðum:
- Det er Thorgeir. Han oversætter mine böger til originalsproget.
(Þessi heitir Þorgeir. Hann þýðir bækurnar mínar yfir á frummálið)
Svo drakk ég heilan líter af sérríi með þessu nýja barnabarni mínu.
Þá kom frú Elísa, smávaxin og finleg með rauðmálaða vanga og útsaum-
aða svuntu eins og álfkona í fasi og bauð okkur til borðstofu þar sem forrétt-
urinn beið. Það var fiskstappa krydduð með jurtum úr álfheimum. Og ég fór
að hugsa um Kristján afa minn, sem líka var alinn upp í álfheimum en Lísa
kom með rauðvín í karöfflu, lét á borðið og stillti sér upp með krosslagða
handleggi hjá skáldinu sínu. Það kom bersýnilega ekki til greina, að hún
borðaði með okkur. Það fannst mér eðlilegt því svona hafði Rósa amma mín
þetta þegar hún þjónaði okkur afa til borðs. Samt brá mér ögn þegar skáldið
sagði hálf hryssingslega eins og vandfýsinn hótelgestur:
- Det skal ikke rödvin til fisken!
(Það er ekki haft rauðvín með fiski)
Og þessi nýja amma mín sem raunar var eiginkona barnabarns míns
skokkaði af stað til að finna hvítvín meðan við sátum í þögn og biðum.
Lísa fór í kjallarann og Lísa fór á háaloftið. Það var opið fram í eldhúsið og
út um stóran glugga sá ég hana skokka á milli nærliggjandi húsa í leit að
hvítvíni.
William Heinesen áttræður og bráðhress
framan við heimili sitt, Varðagötu 43.
TMM 2000:3
malogmenning.is
21