Gripla - 01.01.1995, Blaðsíða 103
TRÚSKIPTI OG PÍSL í HRAFNKELS SÖGU
101
fyrstan fórnarlamba sinna (7. k.). Hann hefur vegið vopnlausan hús-
karl sinn, en áður stóð hann í frækilegum einvígjum. Iðrun Hrafnkels
er til þess fallin að gera málarekstur Þorbjarnar gegn honum óskyn-
samlegan í fyrstu, og ljóst af sögunni að Þorbjörn velur heimskulega,
þegar hann neitar boðum Hrafnkels. Kemur sú skoðun bæði fram í
máli Bjarna bróður hans og Sáms frænda hans við liðveislubónunum
(7. k.).
Fall Hrafnkels af veraldlegum stalli um miðja sögu á rætur í dýrkun
hans á Frey - en þó er sú ástæða einungis yfirskin - því að landsfræg
vígaferli og yfirgangur en ekki dráp eins smalamanns, gera hann að
verðugum mótstöðumanni þeirra Þjóstarssona, þegar til Alþingis kem-
ur. Orð Þorkels Þjóstarssonar við Þorgeir bróður sinn þegar hann leit-
ast við að sannfæra hann um að veita Sámi og Þorbirni lið, bera þeirri
afstöðu vitni:
þœtti mér mikit vaxa mín virðing eða þess hpfðingia er á Hrafn-
kel gæti npkkura vík róit, en minkask ekki þó at mér fœri sem
Qðrum, fyrir því at má mér þat sem yfir margan gengr; hefir sá
ok iafnan er hættir (10. k.).
Þjóstarssynir ganga í málið gegn Hrafnkatli, til þess að steypa höfð-
ingja af stóli og auka virðingu sína, en ekki til að hefna Einars smala-
manns.
Fjórtán dögum eftir að dómur fellur yfir Hrafnkatli á Alþingi koma
Sámur og Þjóstarssynir að Aðalbóli til að heyja lögbundinn féránsdóm
(13. k.). Aðgangan er hörð. Þjóstarssynir taka Hrafnkel úr rekkju, og
sjö menn hans, og hengja þá upp á váðás einn. Þeir hengja þá upp á
fótunum, með því að stinga raufar á hásinum þeira ok draga þar í reip-
in, og hengja þá þannig upp öfuga. Þeir hanga þar líkt og blautar voðir
til þerris. Slíkur atburður á sér enga samsvörun í sögnum um íslenska
atburði. Engar hliðstæður eru í samtímasögum, þó að nokkuð sé um
misþyrmingar í Sturlungu. Þar eru menn hengdir á gálga og strengt að
hálsi en ekki ökkla. Mönnum er vissulega refsað fyrir brot sín, en
hegningin hæfir þá oft verknaðinum, eins og alsiða var á þeim tíma í
Evrópu (Fulk 1986:22). En hvernig gat slík hegning hæft Hrafnkatli?
Hrafnkell hefur í fyrsta sinn unnið víg sem hann iðrast og viljað
bæta, hann skal nú kenna á sér þess voðaverks og annarra sem hann
hefur brotið á mönnum (Davíð Erlingsson 1971:15-16). Líkamlegar
meiðingar skulu setja mark sitt á hann svo að hann skilji og finni á lík-