Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Page 5
4
EyJA MARGRéT BRyNJARSdÓTTiR OG JÓN ÓLAFSSON
Eins er það vaxandi áhyggjuefni að sífelldar kröfur um aukinn hagvöxt og
sú neyslumenning, mengun og ágangur á auðlindir sem eru óhjákvæmileg
eigi að vera hægt að viðhalda honum, eykur stöðugt óvissuna um að í
framtíðinni verði hægt að lifa mannsæmandi lífi. Því er ekki að furða að
raddir heyrist um endurskoðun bæði fjármálakerfisins og hagkerfisins sem
við búum við. Margar af þeim hugmyndum sem fram hafa komið um
umbætur hafa svo sem komið fram áður í einhverri mynd; ekkert er jú nýtt
undir sólinni – eða í það minnsta fátt. En endurnýjuð róttækni og gagn-
rýni á lífshætti hinna ríkari landa hefur líka endurvakið orðaforða sem var
næstum horfinn úr umræðunni. Hugtök eins og kapítalismi, kommúnismi,
sósíalismi og fleiri slík eru aftur orðin gjaldgeng.
Þema þessa síðasta heftis ársins er peningar, en fimm greinar þess fjalla
um þá með einum eða öðrum hætti, þrjár frumsamdar greinar íslenskra
fræðimanna og tvær þýðingar. Í grein sinni „Fjármálavæðing og mótun
tímans í Konum eftir Steinar Braga“ setur Viðar Þorsteinsson fram þá til-
gátu að Steinar Bragi rannsaki formgerðir fjármálaauðmagns með fundum
aðalpersónunnar í Konum, Evu, við ofbeldishneigða bankamenn. Viðar
greinir söguna með vísunum í marxískar kenningar um fjármálaauðmagn
meðal annars. Hann dregur fram hliðstæður líkamlegs ofbeldis og fjár-
hagslegs valds og sýnir hvernig sagan fléttar saman sjálfsveru aðalpersón-
unnar og veruleika fjármálaauðmagnsins sem hún er ofurseld. Viðar held-
ur því fram að sagan nái að sviðsetja virkni fjármálavalds og skuldsetningar
í samtímanum, þar sem skuldin verður tákn fyrir vald lánardrottins yfir
tíma skuldarans.
Eðli tengsla skuldunauta og lánardrottna kemur við sögu, þótt með
ólíkum hætti sé, í grein Ásgeirs Jónssonar um starfsemi okurlánara í
Reykjavík á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Ásgeir notar gjaldþrot
Blöndalsbúðar sem útgangspunkt fyrir umfjöllun um umfang og eðli okur-
lánaviðskipta á Íslandi á tímum gjaldeyrishafta og verulega takmarkaðrar
lánastarfsemi. Þótt okrarar eða okurkarlar hafi verið fyrirlitinn hópur og
starfsemi þeirra fordæmd af almenningsálitinu, sýnir Ásgeir fram á að þeir
hafi þó að mörgu leyti leikið mikilvægt hlutverk í viðskipta- og athafnalífi.
Þörfin fyrir skammtímalán var meiri en bankakerfið annaði, reglur um
vexti gerðu löglega lánastarfsemi erfiða, auk þess sem lánastarfsemi laut í
raun pólitískri stýringu.
Þótt umfjöllunarefni og efnistök þeirra Viðars og Ásgeirs séu býsna
ólík, sýna greinarnar hvor með sínum hætti hvernig fjármálavald skapar