Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Síða 13
12
ingalaus gjöf heldur er Eva neydd til að vera leikmunur í ofbeldisfullri inn-
setningu eða gjörningi eftir Novak. Gjörningurinn, sem nefnist „Konur“
líkt og sagan sjálf, er leynilegt samstarfsverkefni Kaupþings og Novaks,
og er eins konar tilraunastofa fyrir hugmyndir þess síðarnefnda um óæðra
eðli kvenna. Skáldsagan endar þar sem Evu eru allar bjargir bannaðar, læst
inni í næstu íbúð hálf-meðvitundarlaus af lyfjaneyslu, og einhver heyrist
hvísla „verkið fullkomnað“ (k 219).
Líkt og ótal listamenn og menningarstofnanir á góðærisárunum stend-
ur Eva í upphafi sögunnar í tvíbentri þakkarskuld við íslenskt fjármála-
auðmagn, því undir niðri vakir spurningin um til hvers sé ætlast af henni
í staðinn fyrir styrkinn sem henni er veittur.8 Þótt Eva taki aldrei lán,
þá þiggur hún velgjörðir bankans og stendur því í þakkarskuld við hann.
Enn fremur hefur hún búsetu í húsi með milligöngu hans, og þannig má
túlka dvöl Evu í íbúðinni sem myrka allegóríu fyrir algengustu birting-
armynd valds fjármálageirans yfir lífum venjulegs fólks, húsnæðislánasamn-
inginn. Húsnæðislánið kann við fyrstu sýn að virðast ávísun á lífsgæði og
frelsi undan dyntum leigumarkaðarins, en eins og reynsla húsnæðiseigenda
víða um heim hefur leitt í ljós þá getur skuldsetning vegna húsnæðiskaupa
auðveldlega snúist upp í kæfandi byrði.9 Hið grafíska ofbeldi sem Eva undir-
8 Styrkir fjármálafyrirtækja til menningarstofnana og listamanna á Íslandi voru og
eru umdeildir. Sjá Loftur Atli Eiríksson, „Viðskiptavæðing menningarlífsins og
menningarvæðing viðskiptalífsins. Áhrif stefnu íslenskra stórfyrirtækja í styrkveit-
ingum til menningarmála á menningarstofnanir á árunum 2002 til 2008“ (MA
ritgerð við Háskólann á Bifröst, September 2009). Upphaflegur útgefandi Kvenna
var höfundaforlagið Nýhil sem árið 2005 undirritaði styrktarsamning við Lands-
bankann sem vakti nokkra athygli, en höfundur starfaði á þeim tíma með forlaginu
og hafði milligöngu um samninginn. Sjá Bergsteinn Sigurðsson, „Eigum erindi út
fyrir 101,“ Fréttablaðið 8. nóv. 2005, bls. 34.
9 Konur eiga nokkuð skylt með kvikmynd Sams Raimi, Drag Me To Hell (2009),
sem nýtir sér venjur hrollvekjunnar, að vísu á mun léttúðugri hátt en Konur, til
að takast á við ógnvænlegar afleiðingar húsnæðisbólu, í tilfelli hennar bandarísku
undirmálslánakrísuna. Sjá greiningu Annie McClanahan, „dead Pledges. debt,
Horror, and the Credit Crisis“, Post45 (7. maí 2012), http://post45.research.yale.
edu/2012/05/dead-pledges-debt-horror-and-the-credit-crisis/ (sótt 29. apríl 2014).
Steinar Bragi hefur sjálfur sagt frá því hvernig hann forðaði sér naumlega frá ofur-
skuldsettum húsnæðiskaupum árið 2006: „ég vildi ekki eyða næstu 40 árum ævi
minnar í að borga þennan draum sem var búið að hlaða ofan á spýturnar og nagl-
ana. Þetta bjargaði mér frá myntkörfuláninu sem var búið að ræða við mig – og
gjaldþroti tveimur árum síðar.“ Hólmfríður Helga Sigurðardóttir og Steinar Bragi,
„Með eigið lík í eftirdragi“, Visir.is (4. desember 2011), http://www.visir.is/med-
eigid-lik-i-eftirdragi/article/2011111209653 (sótt 28. júlí 2015). Í ritdómi sínum
um Konur bendir dagný Kristjánsdóttir á hlutverk húsa og íbúða í mörgum fyrri
ViðaR ÞoRsteinsson