Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Síða 19
18
vinnustundir í dag ekki virði afurðarinnar á markaði á morgun einhliða eða
sjálfkrafa, því markaðurinn sveiflast ófyrirsjáanlega og virði hlutanna mót-
ast þannig ætíð mögulega af honum á afturvirkan hátt.24 Það er einmitt í
tómi þessarar óvissu sem fjármálastarfsemi sprettur upp, gapinu milli lof-
orðsins og uppfyllingarinnar sem Nietzsche gerði að umtalsefni í ritgerð
sinni um skuldsetningu. Afleiðuviðskipti, kjarninn í fjármálagjörningum
nútímans, fela í sér tilraun til að loka þessu gapi fyrirfram og festa virði
afurðarinnar í hendi þegar í stað, jafnvel þótt hún væri hvorki framleidd né
afhent. Auðmagnsformúlan M-C-M´ getur þannig umbreyst í formúluna
fyrir fjármálaauðmagn sem Marx táknar svo:
M-M´25
Bókmenntafræðingurinn ian Baucom gengur svo langt að fullyrða að hið
framvirka virði fjármálaviðskipta „orsakist eingöngu af getu tveggja samn-
ingsaðila til að ímynda sér hvers virði [varan] hefði orðið“ á óorðnu augna-
bliki í framtíðinni. Þannig séu framvirkir samningar færir um að „aflýsa
hlutnum, afnema hann sem virðisbera og frelsa þannig virðið undan lítil-
lækkun hlutbundinnar tilveru.“26 Ekki aðeins hin hlutbundna tilvera virð-
ist þannig umflúin, heldur er hefðbundinn skilningur okkar á framvindu,
orsök og afleiðingu innan virðiskeðjunnar einnig settur í uppnám. Hinn
verufræðilega umdeilanlegi grundvöllur auðsöfnunar sem reiðir sig aðeins
á framvirka samninga og vexti varð til þess að Marx sagði formúluna M-M´
lýsa „skálduðu auðmagni“ og hafa aðrir í kjölfarið talað um „falskt virði“
24 Marx er gjarnan legið á hálsi fyrir að aðhyllast þá hugmynd að núvirði á markaði
skilgreinist alfarið af magni liðinna vinnustunda, en lestur á fyrst bindi Auðmagns-
ins leiðir í ljós að svo er ekki. Kenning Marx um meðaltal félagslega nauðsynlegra
vinnustunda fól í sér endurbót á eldri vinnugildiskenningum Smiths og Ricardos
sem áttu mun erfiðara með að skýra afturvirkar breytingar á virði vinnu með tilliti
til þarfa og eftispurnar. Þannig talar Marx um að virði nytsamra afurða skilgreinist
af meðaltali „félagslega nauðsynlegra vinnustunda“ sem varið er í framleiðslu þeirra.
„Það sem var í gær án efa félagslega nauðsynlegur vinnutími til framleiðslu á einum
metra vaðmáls“, skrifar Marx, „hættir að vera það í dag“ ef vindar blása þannig á
mörkuðum (Marx, Capital Volume I, 202). Sjá einnig umfjöllun Tony Smith, The Logic
of Marx’s Capital (Albany: State University of New york Press, 1990), bls. 72.
25 Karl Marx, Capital. A Critique of Political Economy. Volume III, þýð. david Fernbach
(London: Penguin, 1981), sjá Part 5.
26 ian Baucom, Specters of the Atlantic. Finance Capital, Slavery, and the Philosophy of
History (durham: duke University Press, 2005), bls. 95.
ViðaR ÞoRsteinsson