Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Síða 21
20
fjármálaauðmagns og formúlu þess, M-M´, og ekki síst hvernig ofbeldi
niðurskurðar og skuldainnheimtu þvingar að endingu fram uppfyllingu
falskra loforða spákaupmennskunnar. Í sögunni er fjallað beint og óbeint
um hvernig fjármálaauðmagn seilist inn í framtíðina og leggur hana undir
sig á allt að því yfirnáttúrulegan hátt, en þetta kristallast skýrast í lýsingum
Kvenna á listaverkum Josephs Novaks og hugmyndum hans um tengsl
tíma, viðtöku og forms. Enn fremur draga Konur upp raunsæislega mynd
af því hvernig hin innistæðulausa auðsöfnun fjármálaauðmagnsins krefst á
endanum ávallt vinnu mennskra líkama, oft þjáningarfullrar. Eva upplifir á
eigin skinni hvernig viðfangsefni fjármálaauðmagnsins er ekki lengur tími
vörunnar heldur tími sjálfsverunnar sjálfrar, þegar lán eru í vaxandi mæli
ekki aðeins lán fyrir kaupum á varningi heldur lán sem fjárfesta í mann-
eskjunni sjálfri, greiðslugetu hennar, framleiðsluvilja og trausti.
3. Formun og valdið yfir tímanum
Þrátt fyrir hryllilegar lýsingar á kynferðisofbeldi og pyndingum sem Eva
er látin sæta af hendi Novaks og Kaupþingsmanna er mikilvægt að láta
ekki gróteskt ofbeldi Kvenna afvegaleiða skilning okkar á tengslum valds
og formunar eða mótunar í fjármálavæddum síðkapítalisma. Formun er
ekki eintómt einhliða ofbeldi, heldur um leið „mjúk“ formun sem lýtur að
sveigjanlegum tengslum fortíðar og framtíðar fremur en einfaldlega því að
neyða sjálfsverur í óbreytanlegt mót í eitt skipti fyrir öll. Það er ekki síst í
gegnum umfjöllun Kvenna um myndlist, einkum skúlptúr, sem við öðlumst
næmi fyrir þessu sveigjanlega og tíma-tengda eðli formunar í fjármála-
væddu auðvaldssamfélagi. Franski samtímaheimspekingurinn Catherine
Malabou hefur lagt höfuðáherslu á þýðingu formunar (fr. plasticité, en.
plasticity) fyrir skilning okkar á tímanum, sér í lagi hvað varðar getuna
til að mæta ófyrisjáanleika framtíðarinnar. Í formunarhugtakinu greinir
Malabou þríþætta viðleitni til að móta framtíðina, undirgangast mótun af
hálfu hennar og verjast afmynduninni sem stafað getur af henni í líki hins
óvænta. Lýsingarorðið „formunarhæfur“ (e. plastic, fr. plastique) ber með
sér tvö merkingarsvið líkt og Malabou ræðir um í bóki sinni The Future
of Hegel: Annars vegar að vera „móttækilegur fyrir formbreytingum“ eða
mótanlegur líkt og leir og hins vegar að vera „þess megnugur að ljá form,
fær um að móta“. Formunarhæfni felur því að endingu í sér að „vera á sama
tíma fær um að þiggja og gefa form“ í samhengi tíma og breytinga og er á
ViðaR ÞoRsteinsson