Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Qupperneq 58
57
fremur en hugmyndafræði. Þetta er til að mynda viðhorf margra þeirra
hagfræðinga er komu að efnahagsmálum á þessum tíma líkt og Benjamíns
J. Eiríkssonar, Gylfa Þ. Gíslasonar, Jónasar Haralz eða Jóhannesar Nor-
dals.64
Svo virðist sem landsmenn hafi ekki að fullu gert sér grein fyrir efna-
hagslegum afleiðingum þess að skiljast frá danmörku 1918 og landið yrði
að sjálfstæðu myntsvæði. Íslenska krónan hafði frá upphafi verið bæði
gulltryggð og tengd danskri krónu og svo virtist sem þessar tengingar
myndu ekki haggast við aðskilnað. Þetta andvaraleysi má meðal annars
sjá af því að strax árið 1920 var landið komið í mjög alvarlega gjaldeyris-
og bankakreppu og raunar hefur fullveldistíminn verið nær samfelld saga
ójafnvægis og erfiðleika með greiðslujöfnuð landsins. Þá liðu rúmlega 30
ár frá fullveldi þar til landsmenn höfðu stofnað sjálfstæðan seðlabanka. 65
Sérstaklega reyndist kreppan mikla landinu þung í skauti en hún varð til-
efni til bæði yfirtöku ríkisins á bankakerfinu og setningu fjármagnshafta.
Síðan fylgdu innflutningshöft og svo verðlagshöft sem reyrðust þéttar og
þéttar að íslensku efnahagslífi með hverju árinu sem leið, í því augnmiði
að spara gjaldeyri.66
Í ræðu Ólafs Björnssonar prófessors á fundi Stúdentafélags Reykjavíkur
þann 21. febrúar 1956 lýsir hann vel áhrifum haftanna á íslenskt efnahags-
líf. Þar segir:
Hér hafa einungis verið til umræðu þau verðlagsákvæði, sem hafa
þann tilgang að lækka verðið frá jafnvægisverði. […] það leiðir af
slíkum ákvæðum að ekki verður unnt að fullnægja eftirspurninni.
Markaðurinn getur ekki annast vörudreifinguna á sama hátt og
áður, og séu ekki gerðar sérstakar ráðstafanir, verður öngþveiti í
vörudreifingunni. Þetta öngþveiti lýsir sér í hinum alþekktu fyr-
64 „Róttækasta aðgerð hagsögunnar Viðtal við dr. Benjamín H. J. Eiríksson“ Vísbend-
ing, 12. árg., 49. tbl., 1994, bls. 7–9; „Allt önnur saga, ef ... Ólafur Hannibalsson
ræðir við Gylfa Þ. Gíslason“ Vísbending, 15. árg., 49. tbl., 1997, bls. 5–8; Jónas
Haralz „Hvaða lærdóm má draga af hagþróun og hagstjórn tuttugustu aldar?“ birt
í greinasafninu Í leit að staðfestu, ritstj. Ásgeir Jónsson. Reykjavík: Hagfræðistofnun,
2014; Jóhannes Nordal, „Mótun peningakerfisins fyrir og eftir 1930.“ Í Frá kreppu
til viðreisnar, ritstj. Jónas Haralz, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
65 Sjá Ásgeir Jónsson „Bankahrunið 1930: Lærdómur sem ekki var dreginn“ Rann-
sóknir í félagsvísindum Xi. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands,
2010.
66 Sjá Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson, „Áhættudreifing eða einangrun? Um
tengsl lífeyrissparnaðar, greiðslujafnaðar og erlendra fjárfestinga“.
OKURMÁLiN Í AUSTURSTRæTi