Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Page 65
64
Simmel kallar það samt innra gildi á þeim forsendum að þrátt fyrir að
gildið sé frá okkur komið og huglægt sé það í hlutnum og tilkomið vegna
þess að við höfum metið hlutinn vegna eiginleika sem hann hefur, eða sem
við í það minnsta teljum hann hafa. Hvort þessi notkun á hugmyndinni
um innra gildi gengur endanlega upp er nokkuð sem verður ekki skorið úr
um hér en rétt er að hafa það í huga að samkvæmt hugmyndum Simmels
eru öll gildi huglæg. Það sem skiptir mestu máli er að Simmel gerir grein-
armun á gildi hluta og gildi peninga. Hlutina metum við vegna eiginleika
sem í þeim eru en peningana vegna einhvers sem þeim er ætlað að vera
mælikvarði á. Peningalegt gildi er þannig afstætt við það sem peningarnir
mæla. Simmel taldi að hið besta form peninga, það sem hann kallaði „hug-
myndalega rétta“ peninga, væri það sem hefði ekkert innra gildi; nokkuð
sem við höfum mögulega náð núna með rafrænum peningum.
Hér verður ekki komist hjá því að nefna greinarmuninn á því sem hefur
verið kallað notagildi (e. use value) og skiptagildi (e. exchange value). Með
notagildi hlutar er átt við það gagn sem hægt er að hafa af honum, og þá
í víðum skilningi, þ.e. undir það fellur líka ánægja og ýmislegt annað sem
við myndum meta hlutinn fyrir. Skiptagildi hlutar felst hins vegar í því
sem hægt er að fá í staðinn fyrir hann. Það sem Simmel kallar innra gildi
er í raun það sama og notagildi hlutanna, það er það gildi sem felst í mati
okkar á hlutunum vegna eiginleika þeirra. Þetta gildi er huglægt og getur
því verið breytilegt við mismunandi aðstæður. Hins vegar er innra gildi
skilið platonskum skilningi ekki það sama og notagildi heldur eitthvað sem
er í raun æðra notagildinu. Við gætum hugsað okkur að við óskaaðstæður
hefði hlutur með tiltekið platonskt innra gildi líka mikið notagildi en það er
líklega önnur saga sem ekki verður farið nánar út í hér. Eitt helsta einkenni
peninga er svo að gildi þeirra er mikið til, og jafnvel eingöngu, talið felast
í skiptagildinu. Svo við víkjum aftur að brauðhleifnum sem ég minntist á
áðan þá skipta þessar bollaleggingar um gildishugmyndir máli af eftirfar-
andi ástæðum: Samkvæmt platonskum hugmyndum um innra gildi getur
brauðhleifurinn haft fast og óbreytanlegt innra gildi, óháð aðstæðum og
gildismati okkar. En samkvæmt hugmyndum Simmels þá ræðst innra gildi
brauðhleifsins af því hvernig við metum hann. Það hlýtur að ráðast af
því hvort við kunnum að meta brauð, sem er aftur bundið við aðstæður
með ýmsum hætti. Með öðrum orðum getur notagildi brauðhleifs verið
mismunandi við mismunandi aðstæður, til dæmis eftir því hvort það er
hungursneyð eða offramboð á brauði, hvort verurnar sem eiga að meta
eyJa M. BRynJaRsdóttiR