Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Page 66
65
hann borða yfirleitt brauð og svo framvegis. Þessu þarf öllu að halda til
haga þegar við veltum því fyrir okkur hvort peningar mæli innra gildi hlut-
anna.
Hugsum okkur nú hvernig peningar geti mælt gildi hlutar. Fyrst má
reyna að hugsa sér peningamælikvarðann eins og eitthvað sambærilegt
við önnur mælitæki sem við eigum að venjast. Við mælum til dæmis lengd
hlutar með því að bregða á hann málbandi og lesa svo af því tölu á réttum
stað. Talan getur ýmist verið í sentimetrum eða tommum eða einhverri
annarri einingu. Við gætum kannski hugsað okkur að þetta ætti að vera
eins með verðgildi, við gætum brugðið verðmælingartæki á hlut og lesið
af því tölu sem gæti þá auðvitað verið í mismunandi gjaldmiðlum eftir því
hvernig tækið er stillt. En eins og lesendur hafa væntanlega áttað sig á er
þetta ekki alveg svona einfalt. Eitt vandamálið er að þeir eiginleikar sem
við kunnum að meta við hlutina eru ekki endilega mælanlegir (hér skulum
við ekki láta glepjast af hinu íslenska orðasambandi „kunna að meta“ sem
vissulega vísar til mælinga). Með öðrum orðum er gildi hlutanna fólgið
í því að þeir hafa einhverja eiginleika sem eru einkennandi fyrir þá sér-
staklega. Brauðhleifurinn er þannig nærandi, hefur sérstakt bragð og svo
framvegis og þetta eru sérstakir eiginleikar sem þegar þeir koma saman
lýsa sérstöðu hans. Það mætti vissulega mæla hitaeiningarnar í honum og
við einhverjar aðstæður (hungursneyð?) gæti einhverjum þótt henta að
verðleggja hann beinlínis út frá fjölda hitaeininga en það er engan veginn
sjálfgefið að mælingin á verðgildi hans fari þannig fram. Gildi brauðsins er
fyrst og fremst eigindlegt (e. qualitative) en ekki mælanlegt eða megindlegt
(e. quantitative). Vissulega hefur brauðhleifurinn ýmsa eiginleika sem eru
mælanlegir, til dæmis stærð, lögun, já og hitaeiningar. Þessir eiginleikar
brauðsins eru hins vegar ekki það sama og gildi þess þótt þeir geti verið
það sem býr að baki gildinu. Gildið er þannig eitthvað sem er eigindlegt,
jafnvel þótt það sé að hluta til, og jafnvel að miklu leyti, til komið vegna
megindlegra eiginleika. Það að brauðið hafi eigindlegt gildi merkir að
gildið felist í þeim eiginleikum sem einkenna það og þannig sé eitthvað
sérstakt við það sem gerir það verðmætt; gildi þess er ólíkt gildi annars
hlutar sem er ólíkur brauði. Þetta er nokkuð sem Simmel, og raunar fleiri,
hafa fjallað um.
Simmel talar einnig um að mæling verðmætis með peningum sé dæmd
til að verða megindleg. Mælingin getur aðeins farið fram á einum kvarða
og þannig er gildi hinna ólíku hluta lesið af einu og sama mælitækinu þegar
BLÓðSyKUR, ViNNUViKUR, MæLiSTiKUR