Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 74
73
undarlegt er að verkin sem þykja ógeðfelld eða einhverra hluta vegna ekki
eftirsóknarverð eru oft mun verr borguð en ánægjulegu verkin.12
Þetta telur Schroeder sýna að vafasamt sé að gefa sér að iðjuleysi jafn-
gildi illsku. Allt eins líklegt sé að þeir sem ekki hafi vinnu séu að verða af
einhverju sem gæti veitt þeim ánægju eins og að þeir séu að sleppa undan
ógeðfelldri byrði. Auk þess sem Schroeder nefnir má benda á fleira sem
mælir gegn því að hvetja fólk til að vinna sem mest. Mikið af þeirri vinnu
sem innt er af hendi snýst um að framleiða hluti ætlaða til neyslu. Í neyslu-
samfélagi nútímans er aukin neysla síst það sem við þurfum á að halda
heldur einmitt hið gagnstæða; hin mikla neysla okkar mannanna er einmitt
stórskaðleg. Bæði göngum við allt of hratt á mikilvægar auðlindir jarðar og
eins hefur neyslan mengandi áhrif sem í mörgum tilfellum eru óafturkræf.
Með öðrum orðum er neyslumenningin að gera út af við okkur, í bók-
staflegum skilningi. Þetta er væntanlega nokkuð sem lesendur kannast við
og þarf tæpast að útskýra það frekar. Í nýlegri rannsókn á áhrifum vinnu-
stundafjölda á umhverfisþætti voru greind gögn frá 29 OECd-ríkjum frá
37 ára tímabili.13 Niðurstöðurnar sýndu samband milli fjölda vinnustunda
og vistspors, kolefnislosunar og koltvísýringslosunar. Með öðrum orðum
virðist vera umhverfisvænna að við vinnum minna. Það sem málið snýst
um eru vitaskuld ekki vinnustundirnar sem slíkar heldur fyrst og fremst
það sem á sér stað á vinnustöðum og afleiðingar þess, sem getur auðvitað
verið ýmiss konar mengandi framleiðsla en þess utan getur atvinnustarf-
semi haft alls konar umhverfisáhrif sem eru meiri en þau áhrif sem hljótast
af því að fólk eyði tíma heima hjá sér eða annars staðar við frístundaiðkun.
Ef til vill ætti þetta að blasa við en ákveðin tregða hefur verið til að horfast
í augu við þessa hluti af alvöru þar sem þeir fela það í sér að draga verður
úr hagvexti, sem er líklega eins óvinsæl niðurstaða og hugsast getur fyrir
yfirvöld um allan heim, þvert á pólitískar stefnur.
Þau rök sem fram hafa komið hér þess efnis að ástæða geti verið til að
draga úr vinnu, eða í það minnsta að peningar eigi ekki alltaf að þurfa að
vera þóknun fyrir vinnu, geta þá stutt það að þau verðmæti sem peningar
eiga að mæla hljóti að felast í einhverju öðru en vinnu. En skoðum aðeins
betur hvaða afleiðingar skilyrðislaus grunnframfærsla gæti haft.
12 Sama heimild, bls. 6–9.
13 Kyle W. Knight, Eugene A. Rosa og Juliet B. Schor, „Could working less reduce
pressures on the environment? A cross-national panel analysis of OECd countries,
1970–2007“, Global Environmental Change 23, 2013, bls. 691–700.
BLÓðSyKUR, ViNNUViKUR, MæLiSTiKUR