Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Page 80
79
Locke lítur sem sagt svo á að tilgangslaust hljóti að vera að skiptast á silfri
og silfri. Hvers vegna ætti einhver að vilja selja silfur fyrir silfur? Þar fæst
nákvæmlega sams konar hlutur í staðinn fyrir þann sem er látinn. Í það
minnsta finnst honum ekkert vit í að skiptast á ójöfnu magni, því slíkt væri
ekki hægt að skýra nema með einhverjum mun á eiginleikum silfursins
sem hann telur ekki vera. Hér má segja að Locke lendi í ákveðnum skýr-
ingavandræðum: Það sem hann heldur fram að geti alls ekki gengið var
einmitt það sem var talsvert stundað. Silfur í lausu var einmitt selt á hærra
verði en silfurmynt af sömu þyngd. Annað sem verður erfitt fyrir Locke að
útskýra er að hinir rýrðu silfurskildingar, sem jafnvel höfðu tapað allt að
helmingi þyngdar sinnar, voru enn í umferð og fólk tók við þeim eins og
ekkert hefði í skorist á sama verði og áður. Ef gildi silfursins átti að vera
fast þá hlaut þetta að benda til einhvers konar villu. Taldi Locke að fólk
gerði sér ekki grein fyrir að skildingarnir hefðu rýrnað? Eða taldi hann að
fólk hefði á einhvern hátt rangt fyrir sér um gildi annað hvort þeirra eða
silfursins í þeim? Þurfti þá ekki að upplýsa það og leiðrétta mistökin?
Ef til vill er það sérstaklega ein setning sem kemur undarlega fyrir í til-
vitnuninni í texta Lockes hér að framan: „Þetta er það sem heilbrigð skyn-
semi, rétt eins og markaðurinn, kennir okkur.“ Sýndi markaðurinn ekki
einmitt að silfur hefði ekki alltaf sama gildi og silfur, hver svo sem skýr-
ingin væri á því? Þetta kemur okkur ef til vill undarlega fyrir sjónir nú á
dögum eftir langa reynslu af breytingum á gildi gjaldmiðla og mikið umtal
um breytingar á markaðsverði á hinu og þessu, meðal annars góðmálmum.
Margir samtíðarmenn Lockes höfðu reyndar hugmyndir í talsvert öðrum
anda en hann og fjöldi andmæla kom fram við skrifum hans. Mörg þessara
andmæla snerust um að gildi silfursins væri utanaðkomandi (e. extrinsic)
og að silfur hefði ekkert innra eða eiginlegt gildi. Það gildi sem það hefði
væri nokkuð sem leiða mætti af gagnsemi þess sem gjaldmiðils. Þannig
töldu þeir í raun að gildi peninganna kæmi á undan gildi silfurs. Hjá Locke
var sambandið í hina áttina, hann vildi leiða gildi peninga af gildi góð-
málmanna sem í þeim væru. Ýmsir þeirra sem svara Locke, eins og James
Hodges, Richard Temple, Nicholas Barbon og John Cary, héldu því fram
að peningar hefðu aðeins ytra gildi. Þetta gildi væri breytilegt í samræmi
við hvað væri hægt að kaupa fyrir þá. Gildi góðmálma eins og silfurs kæmi
svo enn síðar, það væri sú ákvörðun okkar að nota silfur sem gjaldmiðil
sem gæfi silfri gildi sitt. Gildi silfursins sem ekki var notað í peninga var
BLÓðSyKUR, ViNNUViKUR, MæLiSTiKUR