Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Page 82
81
að binda gildi þeirra við eitthvað áþreifanlegt má teljast vafasamt að gildi
gullsins (eða hvað það nú væri sem við vildum nota sem „fót“) stæði í stað.
Auk þess má fara mismunandi leiðir til að nota kvarðann til mælinga, eins
og sýnt hefur verið.
Þetta þarf kannski ekki að þýða að kvarðinn sé með öllu ónothæfur.
Óstöðugir og breytilegir mælikvarðar geta verið gagnlegir til mælinga
sem eru sjálfar skýrt afmarkaðar. En um leið og við förum að setja hlutina
í víðara samhengi minnkar gagnsemi kvarðans. Eins og fram hefur komið
getur verið mismunandi hvað við ætlum okkur að mæla; gildi vinnunnar,
vörunnar eða einhvers annars. Oft er okkur sjálfum það ekki ljóst. Oft er
það óljóst hvort hluturinn sem á að mæla hefur sjálfstætt verðgildi eða
hvort mælikvarðinn hreinlega ákvarðar gildi þess sem honum er ætlað að
mæla. Niðurstaðan er sú að ein helsta réttlæting peninga sem mælikvarða
sé að við þrjóskumst við að nota þá sem slíkan, þrátt fyrir alla gallana.
Á G R i P
Blóðsykur, vinnuvikur, mælistikur:
Um peninga, vinnu og verðmæti
Í þessari grein er fjallað um ýmsar takmarkanir peninga sem mælikvarða á gildi bæði
hluta og vinnu. Færð eru rök fyrir því að peningar séu afar óáreiðanlegur mælikvarði
á gildi þrátt fyrir að vera mikið notaðir í þeim tilgangi. Meginástæðurnar eru tvær:
Annars vegar eru peningar óstöðugur mælikvarði, en það að mælikvarðinn sé stöð-
ugur er gjarnan talin ein grundvallarforsenda þess að hægt sé að reiða sig á hann.
Hins vegar er oft óljóst hvað það er sem peningum er ætlað að mæla.
Í greininni er farið yfir kenningar um gildi hluta og tengsl þeirra við vinnu og
hvernig peningar koma við sögu við gildismælingar, horft til hugmynda um að rjúfa
tengsl peninga og vinnu með svokallaðri skilyrðislausri grunnframfærslu, tengsl
peninga við skuldir, þvingun og þrældóm skoðuð og litið til hugmynda Johns Locke
um að gildi peninga megi leiða af föstu gildi góðmálma.
Lykilorð: peningar, gildi, vinna, mælingar, heimspeki
BLÓðSyKUR, ViNNUViKUR, MæLiSTiKUR