Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Page 89
88
séu þær safn tiltekinna tákn-hluta (e. semiotic objects) og kóða (textagerða,
bókmenntagreina og stíls); hins vegar venslað samsafn sögulegra aðstæðna
sem einstaklingar eða hópar eigi hlut að, svo og virkni og athafnir sem
lúta að þessum hlutum og kóðum. Báða þættina þurfi að rækta. Leggi
menn ofuráherslu á orð sem hluti (e. verbal objects) geti það hins vegar leitt
af sér skáldskaparfræði sem séu slitin úr nauðsynlegu samhengi, en beini
þeir sjónum einvörðungu að venslaðri virkni og athöfnum sé hætta á að
bókmenntafræðin verði ekki annað en félagsleg stofnanasaga, einstaklings-
bundin vitsmunasálfræði, orðræðuvinnsla (e. discourse processing) og annað
í þeim dúr.15
Margolin telur að geri menn hvorttveggja í sömu mund að rannsaka
bókmenntir og vera empírískir (e. being empirical), skoði þeir í hverju til-
viki tengslin milli þáttanna tveggja, hins semíótíska – þ.e. tákn-hlutanna
og kóðanna – og hins virka. Hann leggur til að það að vera empírískur sé
ekki bundið við hluti, eins og gjarna er gert, heldur orðræðu um hluti eða
fræðilegt mál. Orðræða er empírísk eða hefur empírískt inntak þá og því
aðeins að hún einkennist óhjákvæmilega af hugtökum og staðhæfingum
(e. claims) sem vísa til greinanlegra hluta – þ.á m. einstaklinga og hópa –
ástands, gerða, virkni o.fl. sem setja má niður eða eru fyrir hendi í ríkjandi
tíma og -rúmi (e. actual space-time). Hugtak er empírískt ef það vísar til
eins slíks þáttar eða fleiri og staðhæfing er empírísk ef hún felur í sér slík
hugtök. Staðhæfing er empírískt sönn eða líki hins sanna ef hún felur í sér
fleiri empírísk hugtök en eitt og rennt er undir hana stoðum að svo stöddu
(„pro tempore“) með hliðsjón af sviði rauntíma og -rúms.16
Margolin stingur líka upp á – af því að hann telur empírískar rann-
sóknir spanna víðara svið en tilraunarannsóknir einar – að menn ræði um
bókmenntarannsóknir með empírískri áherslu (þ. Schwerpunkt) fremur en
að stilla upp andstæðunum empírískur ~ ekki empírískur.17
Einkar gagnlegt við skrif Margolins er að hann víkur að hvernig nýta
megi ýmislegt sem ekki er upphaflega empírískt sem tilgátur um fyrirbæri
í raunheiminum og prófa hvort þær vitni um sálfræðilega reynd (og séu
þar með empírískt gildar) með því að kanna viðbrögð hjá hópum tiltekinna
lesenda. Hann nefnir í því sambandi „hreinræktuð hugtakalíkön“ (e. pure
conceptual models) af frásögnum og vísar þá til bókar Bortolussi og dixons
15 Uri Margolin, „Studying Literature and being empirical: A multifaceted con-
junction“, bls. 8.
16 Sama rit, bls. 9–10.
17 Sama rit, bls. 10.
Bergljót Soffía • guðrún • Sigrún Margrét