Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Page 122
121
Ef til vill hefði mátt búast við því að fleiri lýsingarorð af þessu tagi væru
notuð um Marion Briem í Einvíginu, t.d. orð eins og áhyggjulaus, ber, frjáls,
fús, hás, hugsi, klár, laus, sammála, skýr, vansvefta, ör o.s.frv. Höfundurinn
notar því alls ekki allt það svigrúm sem hann hefur til að lýsa Marion
Briem með lýsingarorðum.
Kynbeygð persónufornöfn eru talsvert meira vandamál fyrir höfund
Einvígisins en lýsingarorðin því að það er mjög erfitt að skrifa um pers-
ónu án þess að vísa til hennar með fornöfnunum hann eða hún eins og
nánar verður útlistað í 4. kafla. Í þessum fornöfnum birtist aðgreiningin
milli karlkyns og kvenkyns í öllum föllum eintölu (sbr. hann-hann-honum-
hans og hún-hana-henni-hennar) en í fleirtölu er enginn munur á kynjum
í þágufalli og eignarfalli (sbr. þeim og þeirra). Þess vegna er mögulegt að
vísa í hóp sem Marion er hluti af með þessum beygingarmyndum án þess
að afhjúpa kyn persónunnar. Það er líka hægt að vísa til Marion með aftur-
beygðu fornafni (sig-sér-sín) því að það beygist ekki í kynjum. dæmi um
þetta má sjá í eftirfarandi textabroti þar sem fjallað er um viðbrögð Marion
eftir heimsókn til Katrínar vinkonu sinnar sem er að jafna sig eftir erfiðan
uppskurð á berklahælinu í Kolding:
(10) Marion hélt til stofu sinnar á annarri hæðinni, gekk beint að rúminu
og lagðist fyrir, dró teppi upp yfir höfuð sér og gróf sig ofan í svæf-
ilinn og grét. (Ai:221)
Í þessu dæmi væri útilokað að nota persónufornafn (honum/henni eða hann/
hana) og það á reyndar við um öll dæmin í Einvíginu þar sem afturbeygt
fornafn vísar til Marion Briem. Í íslensku er þó stundum hægt að komast
hjá notkun persónufornafns með því að setja afturbeygt fornafn í staðinn,
sbr. (11a) í stað (11b):
(11) a. Marion taldi [að Albert væri á móti sér …].
b. Marion taldi [að Albert væri á móti honum/henni …].
Í dæmi (11a) er svonefnd langdræg afturbeyging en þá vísar afturbeygt for-
nafn í aukasetningu (sem hér er afmörkuð með hornklofum) til nafnliðar
í móðursetningu (sjá t.d. Höskuld Þráinsson 2005:532, 536–541); í þessu
tilviki er það afturbeygða fornafnið sér sem vísar til nafnliðarins Marion.
En þar sem langdræg afturbeyging er háð ýmsum skilyrðum er eðlilegt að
höfundur Einvígisins skuli hvergi nýta sér þennan möguleika til að vísa til
Marion með fornafni án þess að koma upp um kynið.
MÁL OG KyNÓViSSA Í ÍSLENSKU