Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Síða 143
142
Evrópu og Norður-Ameríku og varð einkennandi fyrir mótmæli gegn fjár-
málahruni og niðurskurði eftir 2008.14
Stern og davis tengja pottaslátt einnig við 700 ára gamla franska hefð
gauragangs (fr. charivari) sem á Englandi var kallaður rusk tónlist (e. rough
music). Gauragangur og rusk tónlist gengu á miðöldum út á að vekja af
svefni „betri borgara“ sem hugsanlega höfðu brotið gegn velsæmi, með
því t.d. að giftast á ný of skömmu eftir lát maka. Íbúum húss var þá gert
rúmrusk af háværum hópi fólks, oft ungra manna, sem barði það sem
hendi var næst og bjó þannig til ærandi hávaða í stuttan tíma og hvarf svo á
braut.15 Þar með hafi málinu verið lokið og „refsingin“ út tekin. Þannig er
vanþóknun og vandlæting þeirra sem taka þátt í gauraganginum látin í ljós
með táknrænum og „ritúalískum“ hætti.
Í tengslum við umfjöllun sína um hávaðanotkun á miðöldum heldur
Attali því fram að það að framleiða hávaða, og eigna sér þannig hljóðheim-
inn, sé leið hins undirokaða til þess að hrista upp í hljóðkerfi hins ráðandi
yfirvalds og sýna sjálfum sér og öðrum mátt sinn. Hneykslun, vonbrigði
og reiði geta verið kveikjan, en rúmrusk tengist viðsnúningi valdakerfis í
stuttan tíma, samkvæmt Attali, líkt og í karnivali.16 Pottaslátt í mótmæla-
aðgerðum er hugsanlegt að tengja einhvers konar valdeflingu þeirra sem
taka þátt í aðgerðunum, eins konar yfirtöku á hljóðheiminum þannig að
þeirra rödd heyrist. Segja: „hér er ég, ég er ekki þögul og valdalaus heldur
get látið í mér heyra!“
Það einkennir pottaslátt í mótmælaaðgerðum að þar taka margir, eða
jafnvel flestir, þátt með því að slá á hvert það ásláttarhljóðfæri sem hendi er
næst. Öfugt við aðgerðir þar sem einn ræðumaður leiðir hópinn eða skila-
boðum er fyrst og fremst komið til skila á skiltum og borðum, heyrist svo
mikill hávaði frá almennum þátttakendum að erfitt er að tala saman eða
skiptast á skoðunum. Hvað þá að stunda vinnu í nágrenninu.17 Enda höfðu
aðgerðirnar í janúar 2009 á Austurvelli meðal annars þann tilgang að trufla
störf Alþingis og koma í veg fyrir hefðbundna virkni þess. Pottaglamur
íslensku búsáhaldabyltingarinnar er því fjölþjóðlegt að því leyti að það er
14 Por Pilar Guevara og Alfredo Peña, „¿Cuándo y porqué nacieron los cacerolazos?“
Cambio21, 5. ágúst 2011, sótt 5. ágúst 2015 af http://www.cambio21.cl/cambio21/
site/artic/20110805/pags/20110805191441.html.
15 Mike Goldsmith, Discord, bls 50–51.
16 Hendy og Goldsmith fjalla einnig um tengsl karnívals, gauragangs (fr. charivari)
og rusk tónlistar (e. rough music) í sínum ritum þó þau séu að öðru leyti mjög ólík
að innihaldi og efnistökum.
17 Geir Jón Þórisson, Samantekt á skipulagi lögreglu, bls. 134.
njörður SigurjónSSon