Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Side 145
144
kvæmt samkomulagi við skipuleggjendur, en nokkrum sinnum var aug-
ljóst að óboðnir ræðumenn gátu kveðið sér hljóðs í hita augnabliksins og
einnig fengið að ávarpa samkomuna. Tónlistaratriði frá Lúðrasveit Íslands
voru hluti dagskrárinnar, en einnig komu annars konar hljóðgjörningar
við sögu. dæmi um það er spól frá hópi vélhjólamanna sem stilltu sér eitt
sinnið upp fyrir framan Alþingishúsið og framkölluðu ærandi hávaða. Í
lok fundar ávarpaði Hörður iðulega samkomuna og setti fram „kröfur
fundarins” sem svarað var með „já-i“ af fundarmönnum:
Þúsundir manna öskruðu já háum rómi þegar Hörður Torfason,
tónlistarmaður og skipuleggjandi mótmælanna, spurði fólk hvort
það vildi stjórn Seðlabankans burt. Sömu sögu var að segja þegar
hann spurði hvort fólk vildi stjórn Fjármálaeftirlitsins, spillingaröfl-
in og ríkisstjórnina burt. Þúsundraddað já kvað við. Rétt eins og fólk
krafðist kosninga í vor með háværu já-svari. 20
Að flestu leyti var þó hljóðmynd eða hljóðkerfi fundanna nokkuð hefð-
bundið miðað við íslenska útifundi: Ræðumenn héldu ræður og gestir
fundarins fylgdust með og klöppuðu þegar þeim líkaði það sem sagt var.
Hljóðneminn er táknrænn í þessu fyrirkomulagi en hann er lykill að áhrif-
um í hljóðkerfinu.21 Hljóðneminn er tæki til þess að fá orðið, fundarham-
ar eða kyndill handhafa orðsins: lykillinn að hlustunarkerfi einræðunnar,
áheyrendalýðræðisins, þar sem einn talar og aðrir hlusta.22
Eftirtektarverðar undantekningar eru þó á þessu fyrirkomulagi á tveim-
ur fundum í desember 2008 þegar haldin voru þögul mótmæli og ræðum
var sleppt. Þá las Hörður Torfason stutta yfirlýsingu en fundarmenn stóðu
og þögðu saman til þess að leggja áherslu á óánægju sína. Þann 20. des-
ember stóð þögnin í 11 mínútur eða eina mínútu fyrir hvern laugardag
sem mótmælin höfðu þá staðið yfir, en nokkuð minni þátttaka var þó í
20 Sérfræðingur í að gelda og svæfa, dv.is, 15. nóvember 2008, sótt 5. ágúst 2015 af
http://www.dv.is/frettir/2008/11/15/serfraedingur-i-ad-gelda-og-svaefa.
21 Hljóðneminn virkar einnig sem limur eða „töfrasproti“ æðstaprestsins, sjá til dæmis
umfjöllun Steve Waksman, Instruments of Desire: The Electric Guitar and the Shaping
of Musical Experience Cambridge, Massachusetts: Harvard University Press, 1999,
bls. 250. Gjallarhornið virkar á svipaðan hátt en er hugsanlega neðar í merkingar-
stigveldi hljóðvaldskerfisins þar sem það er ekki tengt hinu eiginlega hljóðkerfi og
auðveldara að grípa eða færa það til.
22 Njörður Sigurjónsson, „Hljóðmenning Alþingis“, Skírnir, vor 2014, bls. 49–72,
hér bls. 50–51.
njörður SigurjónSSon