Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Side 153
152
... það var svo mikill hávaði þarna, þetta var glamur og taktur, sumt
var svolítið flottur taktur, en ægilegur hávaði. ... Það var jafnvel farið
að berja í hjálmana hjá mönnum, þú getur ímyndað þér sko, kannski
búinn að standa þarna í 12–13 tíma og það er verið að berja í hjálm-
inn hjá þér sko að það er stuttur kveikurinn í mönnum.40
Mörk hávaða og ofbeldis geta því verið óljós. Hugtakið „hávaði“ hefur,
líkt og Attali bendir á, margþætta merkingu og getur til dæmis þýtt hljóð
sem er of hátt, ógreinilegt, eða á einhvern hátt ekki eins og það á að vera.
Líkt og þegar verið er að „misnota“ hljóðfæri en það er ekki „tónlist“ sem
kemur heldur „bara hávaði“.41 En hávaði er líka ofbeldi og vopn þegar
hann brýst inn þar sem hann á ekki heima eða truflar og ógnar ríkjandi
skipulagi.42 En hugsanlega er nærtækast að líta á hávaða búsáhaldabylting-
arinnar sem ofbeldi í óeiginlegum skilningi Attalis, það er að hljóð er vald í
sjálfu sér. Og í þeim skilningi að það gefur möguleika til áhrifa, er tækifæri
til þess að fá að haga hlutum á ákveðinn hátt.
Að „kveðja sér hljóðs“ merkir að aðrir þurfa að hlusta eða í það minnsta
hafa sig ekki í frammi á sama tíma og ræðumaður talar. Skyld athöfn er
að „taka orðið“ eða „taka til máls“ þó ekki sé alltaf öruggt að ræðumaður
fái hljóð. Kröfur þeirra sem láta í sér heyra, grípa orðið, fá í framhald-
inu hugsanlega undirtektir eða hljómgrunn. En í samhengi andstöðunnar,
hávaðans, skiptir ekki megin máli innhald ræðunnar heldur að ræðumaður
hafi orðið. Sigurður Pálsson orðar líka hugsun í tengslum við uppreisnina
í París í maí 1968: „Maí-hreyfingin tók ekki völdin, hún tók til máls. Hún
tók orðið af gamla þjóðfélaginu og hún hélt því. Gamla, stirðnaða þjóðfé-
lagið fékk aldrei orðið aftur. Það aðlagaðist smám saman hinu nýja.“43
Málþóf á Alþingi virkar þannig að ræðumaður tekur orðið en aðrir
skulu hafa hljóð þó þeir þurfi ekki að hlusta. Andstaða þeirra sem ekki
hafa orðið eða hljóðið er að vera ekki á staðnum, hlusta ekki og heyra ekki,
40 Sama heimild, hér bls. 6.
41 Þannig er hugtakið, í skilningi Attalis og þeim sem við notum hér, afstætt og skil-
greiningar á hávaða tilefni átaka og samningaleitar því ólíkar hugmyndir aðila um
hvað teljast „skilaboð“ ákvarða skilgreininguna. Í samskiptafræðum er þessu líkt
farið: Frá sjónarhóli þess sem talar þau boð sem mælandinn vildi ekki senda hávaði.
Á sama hátt er það sem ekki er hluti af skilaboðunum, hið ógreinilega eða það sem
truflar þau að mati viðtakandans, hávaði. Hávaði er líka það af skilaboðunum sem
móttakandinn vill ekki taka við eða truflar hana.
42 Jacques Attali, Noise, bls. 24.
43 Sigurður Pálsson, Táningabók, Reykjavík: JPV útgáfa, 2015, bls. 276.
njörður SigurjónSSon