Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Síða 155
154
tekinn af Nátttröllinu sem felur Putta í helli sínum í Tröllafjalli. dvergarnir
finna út að til þess að opna hellinn þarf að fara með orðalykilinn „harka,
parka, inn skal arka“ við opið á klettinum og það þarf að segja með gríð-
arlegum styrk svo hamarinn haggist. Allir íbúar ævintýraskógarins safnast
því saman og með því að narra nornina, úlfinn og stjúpuna til þess að æpa
í skilaboðaskjóðuna, og opna svo skjóðuna á réttum tíma, tekst þeim að
fara nógu hátt með orðalykilinn svo að hamarinn opnast, Putti sleppur
og Nátttröllið verður sjálft að steini. Sagan ber fagurt vitni ímyndunar-
afli Þorvaldar Þorsteinssonar og stundum hljóma ævintýri dálítið eins og
spádómur.
Án þess að ýkja mikilvægi mótmæla búsáhaldabyltingarinnar, gera þau
til dæmis að Messíasarheimt í skilningi Rancière eða Žižekskum byltingar
atburði, voru þetta örlagaríkir dagar og mótuðu menningu og stjórnmál á
Íslandi næstu árin á eftir.46 Því má einnig halda fram að í vissum skilningi
hafi mótmælendur haft fullnaðarsigur með beitingu hávaða: Að búsáhalda-
byltingin hafi uppfyllt markmið sín, því ríkisstjórnin sagði af sér í beinu
framhaldi af aðgerðunum og boðað var til kosninga. Á þann hátt gekk
„Nátttröllið“ út í sólarljósið og varð að steini.
Varhugavert er hinsvegar að líta á mótmælin og afleiðingar þeirra sem
byltingu í þeim skilningi Aristótelesar að breytingar hafi orðið á stjórnkerfi
eða stjórnarskrá. Hvað þá að líta á mótmælin sem marxíska byltingu, það
er að segja að mótmælendur, eða byltingin, hafi verið einradda kór öreig-
anna eða mannsöfnuður með sameiginlegan vilja. Til þess voru kröfurnar
of margvíslegar og jafnvel ósamhljóða. Nær væri að segja að ekki hafi verið
nein ein framtíðarsýn sem sameinaði hópinn, heldur hugsanlega aðeins
tímabundin andstaða við núið eða „ástandið”. Sameinaður kór ævintýra-
skógarins er þannig aðeins kór í stutta stund, eitt andartak þar sem allir
hljóma saman, en svo leysist hópurinn upp og daglegt líf í skóginum tekur
46 Jacques Rancière Dissensus: on Politics and Aesthetics New york og London: Cont-
inuum, 2010, bls. 10. Slavoj Žižek, Event: A Philosophical Journey Through a Concept,
London: Penguin, 2014. Í þessari grein er ekki gerð tilraun til þess að staðsetja
búsáhaldabyltinguna í samhengi sósíalískrar byltingarsögu eða heimspekilegrar
umræðu um stöðu hennar í samtímanum en grein Egils Arnarsonar, „Mergð eða
sjálfsvera?“ er einmitt tilraun til þess eins og minnst er á hér að framan. Um afstöðu
ólíkra höfunda til byltingarinnar og hins „messíaníska loforðs“ sjá einnig Björn
Þorsteinsson, „Framtíð frelsunarinnar. Vandinn við að erfa hið messíaníska loforð“,
Af marxisma, ritstj. Magnús Þór Snæbjörnsson og Viðar Þorsteinsson, Reykjavík:
Nýhil, 2009, bls. 11–34.
njörður SigurjónSSon