Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Síða 157
156
Tónblær og taktur í búsáhaldabyltingunni tók líka svip af suðrænni
kjötkveðjuhátíðartónlist og þróaðist á áhugaverðan hátt eftir því sem á
mótmælin leið. Það sem í fyrstu er harður og endurtekningasamur áslátt-
ur líkt og barið sé á rúðu eða á trumbu á íþróttakappleik, verður mýkri
og sveiflukenndari taktur við að slegið er í kúabjöllu eða pott. Það gerir
seinkun í áslættinum, synkopa, sem heyra má í danstónlist, en til þess að
átta sig á muninum má hugsa sér lúðrasveit sem annars vegar leikur stífan
hergöngumars og hinsvegar suðrænt samba.
Tónninn er þó auðvitað alvarlegri en á hinni klassísku kjötkveðjuhátíð
og enginn efast um að mikið er undir. Einar Ólafsson gerir hinu nýja
ástandi mótmæla og mótmælahreyfinga skil í greininni „Karníval mót-
mælanna“ frá 2001:
Sérstaða þessarar hreyfingar liggur að hluta í skilningi hennar á
karnívalinu. Karnívalið er tímabundin frelsun frá ríkjandi skipu-
lagi og valdhöfum, boðum og bönnum. Karnívalið er hátíð fólksins
sjálfs, fólkið er gerendur hennar en ekki áhorfendur. Þetta karníval
er hins vegar öðru vísi en hið hefðbundna karníval af því að það er
ekki með samþykki yfirstéttarinnar, það er ekki tímabundin frelsun
undan henni heldur liður í samfelldri baráttu gegn henni.50
Kröfugerð karnívalsins er andstaða gegn áframhaldandi sjálfvirkni kerf-
isins, þess sem virðist óumflýjanlegt í heimi sem stjórnast af valdi alþjóða-
kapítals. Valkostirnir eru margir og sumir hafa enn ekki verið prófaðir,
hugsaðir eða komið í orð, en krafan er að stigið verði á bremsuna og hægt
á vélinni. Í þessu samhengi, rétt eins og í búsáhaldabyltingunni, er ekki
endilega um að ræða einn sameiginlegan „málstað” eða svar við því hvern-
ig heimurinn eigi að líta út. Það er ekkert eitt viðfang, engin „ein ganga“
eða sameiginleg draumsýn, heldur aðeins samansafn umkvörtunarefna sem
þó tengjast, en eftir óljósari brautum.
Hljómfallið hér ekki eins „hetjulegt“ eða afgerandi, býður ekki end-
anleg svör eða allsherjarlausnir, heldur læðist það um spyrjandi, óljósara
og óákveðnara, myrkara eða jafnvel mýkra.51 Búsáhaldabyltingin í þeim
skilningi er því hugsanlega frekar margradda öskur, hávaði í moll sem er
óræðari, minni, dekkri og ekki eins hetjulegur og atburðurinn eða stjórn-
50 Einar Ólafsson, „Karníval mótmælanna: Andófsaðgerðir gegn hnattvæðingunni
eða nýkapítalismanum“, Tímarit Máls og menningar 5.–6. tbl. 62. árg. desember
2001.
51 Gilles deleuze og Felix Guattari, Kafka: Toward a Minor Literature, bls. 21.
njörður SigurjónSSon