Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Page 158
157
mál í „dúr“.52 Moll er þó kannski ekki besta lýsingin því hljóðið er utan
tónlistar og það notar ekki „tungumál merkingar“ þó það líkist því. Með
því er ekki gert lítið úr áhrifamætti hávaðans heldur verður merkingin
afdráttalaus andstaða: Hún er ekki „svona viljum við hafa það!“ (svo vitn-
að sé í fræga auglýsingu sem einkenndi menningarástandið 2007) heldur
„nei…“ eða „svona viljum við ekki hafa það!“ Þannig er mikilvægt að hafa í
huga að aðeins ein krafa var uppi þegar mótmælin náðu hámarki, og skiluðu
árangri, en það var stefið „vanhæf ríkisstjórn“ sem endurtekið var í sífellu
uns yfir lauk með afsögn ríkisstjórnarinnar. Því felst í hávaðanum neikvæð
krafa sem er jafnvel markmið í sjálfri sér, og er margradda árás á þögnina og
þannig afl til breytinga án þess að fyrirheit um ferðalok séu ljós.
Niðurlag
Undirrituðum fannst stemmningin á Austurvelli minna á fyrri glæsi-
legar og frjálsar samkundur á sama svæði; á falleg atriði úr heimildar-
myndum sem sýna þegar fólk verður frjálst til þess að tjá tilfinningar
og skoðanir sínar – láta öllum illum látum af gleði og skapa hálfgerða
Carnival stemmningu undir styrkri röddu forsætisráðherra; dyggum
heiðursverði íslenskra skáta, tignarlegri fjallkonunni og virðulegri nánd
Jóns Sigurðssonar.53
Svo virðist sem mótmælamenning hafi breyst á Íslandi á undanförnum
árum og einkennist nú meira af hávaða og hljóðum en hún gerði fyrir fjár-
málahrunið 2008. Pottaglamur, tunnusláttur, lyklahringl og endurteknar
möntrur líkt og „vanhæf ríkisstjórn“ einkenna þessa þróun, en vísbend-
ingar um að þessi menning hafi hugsanlega fest sig í sessi má meðal annars
ráða af átökum um hljóðheim 17. júní hátíðahaldanna 2015. Þegar þessi
orð eru skrifuð lítur út fyrir að rúmum sex árum eftir búsáhaldabyltinguna
hafi þessi einkenni haldist á mótmælum sem tengjast ríkisstjórn og andófi
gegn henni.
52 Trommuhringurinn er sannarlega stjórnmál í dúr en hér verðum við að athuga að
í íslenskri þýðingu á hugmyndinni um stjórnmál í dúr og moll glatast nokkuð af
tengingunum og hugtökin verða annarskonar myndhverfingar. Hugtakið „minor“
á ensku og (fr. mineur) merkir sem dæmi ekki bara moll heldur líka „ólögráða“ í
lagalegum skilningi, „minni“ og jafnvel eitthvað sem „skiptir litlu máli.“
53 Stefán Guðmundsson, „Þrælsótti mótmælenda á Austurvelli?“, Kjarninn, 18. júní
2015, sótt 7. ágúst 2015 af http://kjarninn.is/2015/06/thraelsotti-motmaelenda-
a-austurvelli.
HÁVAði BÚSÁHALdAByLTiNGARiNNAR