Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Side 162
161
gunnþórunn guðmundsdóttir
Frásögn án gleymsku og dauða
Sjálfstjáning á samfélagsmiðlum
Hin nýja sjálfstjáning
Í gegnum aldirnar hafa sjálfsævisöguleg skrif breyst og þróast í takt við
strauma og stefnur í þjóðfélagi, bókmenntum og hugmyndasögu hvers
tíma. Þá hafa þær byltingar og umbreytingar á tækni og miðlun sem orðið
hafa á síðustu öldum einnig haft mikið að segja í mótun sjálfstjáningar.
Sem dæmi má nefna að iðnvæðing prentunar hafði gríðarleg áhrif á þróun
sjálfsævisögunnar, rétt eins og á aðrar bókmenntir. Hið sama á við um
netvæðingu samtímans, því sú tegund af miðlum á netinu sem býður uppá
gagnvirka miðlun, tjáningu og samskipti á borð við Facebook, instagram
og Twitter og nefnd hefur verið samfélagsmiðlar (e. Social Network Sites,
SNS),1 er nú orðin eitt af þeim tækjum sem við notum til að segja sögu
okkar eða sögurnar í lífi okkar. Sjálfsævisagnafræðingar hafa rætt um þá
þörf sem manneskjan virðist hafa fyrir að segja sögu sína, það sem Paul
John Eakin hefur nefnt ‚the autobiographical imperative‘ eða sjálfævi-
sagnaþörfina, og samfélagsmiðlar gera okkur kleift að svala þeirri þörf
með því að skrásetja líf okkar og deila því með öðrum.2 Gríðarleg fjölgun
1 Hér miða ég við skilgreiningu danah boyd og Nicole B. Ellison á samfélagsmiðlum
sem lýsa þeim sem „web-based services that allow individuals to (1) construct a
public or semi-public profile within a bounded system, (2) articulate a list of other
users with whom they share a connection, and (3) view and traverse their list of
connections and those made by others within the system.“ „Social network sites:
definition, history, and scholarship,” Journal of Computer Mediated Communication,
13.1 (2007): 210–230, bls. 211. Það er hins vegar deilt um hvort nota eigi orðið
‚network‘ eða ‚networking‘, sjá grein davids Beer, „Social Network(ing) Sites…
Visiting the story so far: A response to d. boyd and N. Ellison,“ Journal of Computer
Mediated Communication 14.1 (2008): 516–529. Í þessari grein verður þó ekki fjallað
að neinu ráði um félagsþátt þessara miðla, þ.e. tengslin og tengslamyndunina (net-
work/networking), heldur fremur um sjálfstjáninguna sem á sér þar stað.
2 Paul John Eakin, Fictions in Autobiography: Studies in the Art of Self-Invention,
Princeton: Princeton University Press, 1985, sjá einkum bls. 275–278.
Ritið 3/2015, bls. 161–179