Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Qupperneq 166
165
komið af stað ‚flash-mobs‘, mótmælum, jafnvel byltingum.11 Þessa stöðuga
gagnvirkni milli atburða og miðlunar er af öðrum toga en í eldri formum
sjálfstjáningar og hlýtur að hafa áhrif á þá sögu sem við segjum þar. Það er
mikilvægt að taka til greina ábendingu Roberts Cover um að sjálfsmynd
okkar er ekki stöðugt fyrirbæri, eins og stundum er látið liggja að, heldur
að birtingarmyndir hennar á samfélagsmiðlum sýni „framsetningu á sjálfi
sem er sífellt gagnverkandi athöfn“.12
Sjálfstjáning, sjálfsmynd, mörk og eignarhald
En hvers konar sjálfsævisöguleg frásögn verður til úr okkar (vissulega
takmörkuðu) athöfnum á netinu og hvernig tengist hún spurningum um
sjálfsmynd? Samkvæmt Paul John Eakin þá eru sjálfsævisöguleg skrif í
senn birtingarmynd náttúrulegra ferla og mótandi þáttur sjálfsins og sjálfs-
myndar.13 Þessu náttúrulega, eða mannlega, ferli, ef við gerum ráð fyrir að
slíkt sé til, hlýtur að vera raskað af rafrænum netheimum. Síðurnar okkar
verða að einhverju leyti netútgáfur af okkur sjálfum, í senn afurð af reynslu
okkar og áhrifavaldur hennar, sem breytir okkur þá í sæborgir án hinna
hefðbundnu tæknilegu forsendna sem það að jafnaði krefst.
Sjálfstjáning er þannig ekki sjálfsprottin, hversu mótsagnakennt sem
það kann að hljóma, hún mótast af menningarlegum formum og venj-
um. Við þurfum að veita þessum miðlunarformum fyrir minningar okkar
11 Vald netsins til þess að efna til eða hafa áhrif á slíka atburði er auðvitað umdeilt,
en sem samskipta- og miðlunartæki í slíkum kringumstæðum er það án fordæmis.
Þetta er einnig samskiptaform sem yfirvöld óttast, eins og sjá má á því að Twitter
og öðrum slíkum síðum er oft lokað af yfirvöldum á umbrotatímum. dæmi um slíkt
var til dæmis í mótmælunum í Venezuela á útmánuðum 2014. Rannsókn dagblaðs-
ins The Guardian og London School of Economics á óeirðunum í London 2011
sýndi fram á að Twitter hafði ekki gegnt mikilvægu hlutverki í útbreiðslu upplýs-
inga meðal óeirðafólksins, en gegndi mikilvægu hlutverki fyrir fjölmiðla og fyrir
hreinsunarstarfið í kjölfarið. Sjá James Ball og Paul Lewis, „Twitter and the riots:
How the news spread,“ í Reading the Riots: investigating England’s Summer of
disorder, The Guardian, 7. desember 2011, http://www.theguardian.com/uk/2011/
dec/07/twitter-riots-how-news-spread. Ítarlega umfjöllun um tengsl aktívisma og
netheima má finna hjá Joss Hands, @ is for Activism, London og New york: Pluto
Press, 2011.
12 Robert Cover, „Becoming and Belonging: Performativity, Subjectivity, and the
Cultural Purposes of Social Networking,“ Identity Technologies, ritstj. Anna Poletti
og Julie Rak, Madison: University of Wisconsin Press, 2014, bls. 55–69, bls. 55.
13 ég hef fjallað um þetta í greininni „„Minnið er alltaf að störfum“. Mótun endur-
minninga og sjálfs í Minnisbók og Bernskubók Sigurðar Pálssonar“, Ritið: 2/2013,
bls. 135–149.
FRÁSÖGN ÁN GLEyMSKU OG dAUðA