Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Síða 169
168
og á 19. öld varð þetta mikið umtalsefni eins og Laura Marcus hefur sýnt
fram á, einkum með auknum skrifum kvenna og svokallaðs ‚venjulegs‘
fólks.21 En spurningin um mörk og hefðir hefur orðið enn áleitnari með
nýrri tækni. Hringrásin milli atburða, stöðu, mynda, minnis, gleymsku og
sjálfsmyndar sem áður var nefnd er sérlega áberandi í þessum aðstæðum.
Óttinn við afhjúpun sem við ráðum ekki við, eða spurningin um hvers
konar ‚hreinskilni‘ er viðeigandi á síðum sem þessum, er fyrirferðarmikil
og knýjandi. Nýlegar uppljóstranir Edwards Snowden sýna þar að auki
áður óþekkt inngrip í áður óþekkt umfang sjálfstjáningar.22 Þetta bætist
við félagslegan þrýsting sem minningar okkar verða nú þegar fyrir á slík-
um síðum eins og minnst var á hér að ofan. Eftir uppljóstranir Snowdens
þurfum við að átta okkur á því að við höfum ekki hugmynd um hverjum
við erum að segja sögu okkar og hvernig, hvar og hvort þær sögur verði
varðveittar. Líf okkar í netheimum eru svo sannarlega ekki í okkar hönd-
um, og þar með spor minninga okkar og stjórn á því hvað ætti að gleymast
með tímanum.
Þessar breytingar sem ný tækni hefur í för með sér virðast óhjákvæmi-
legar vegna eðlis þessarar tækni eins og Viktor Mayer-Schönberger lýsir í
bók sinni Delete: The Virtue of Forgetting in the Digital Age: „Alla tíð hefur
fyrir okkur mannfólkið gleymska verið viðtekin og að muna undantekn-
ingin. Fyrir tilstilli stafrænnar tækni og alþjóðlegra netkerfa hefur hins
vegar þetta jafnvægi riðlast. Nú til dags, með hjálp útbreiddrar tækni,
hefur gleymskan orðið undantekningin og það að muna hið viðtekna.“23
Áhrifin sem þetta hefur á sjálfstjáningu á netinu eru alls ekki ljós. Í frásögn-
inni af okkur sjálfum er gleymskan óhjákvæmileg, við getum ekki munað
allt og ekki skráð allt eða varðveitt, þótt ýmsar tilraunir hafa verið gerðar
í þá veru. Stafræn tækni hefur allt önnur tengsl við gleymsku og það er
athyglisverð samræða sem nú á sér stað milli minnis manneskjunnar og
stafræns minnis. Með stafrænu minni á ég við hvers konar geymslumögu-
leika stafrænnar tækni, af hvaða tagi sem hún er. Eitt af þeim svæðum sem
bera þessari samræðu vitni er virkni minnisins á samfélagsmiðlum. Stafræn
tækni gleymir ekki, eða eingöngu vegna galla í kerfinu. Stafræn tækni er
21 Laura Marcus, Autobiographical Discourses: Theory, Criticism, Practice, Manchester:
Manchester University Press, 1994, bls. 49.
22 Leki Edwards Snowden á gögnum NSA kom í ljós 2013. Hér má sjá yfirlit yfir
þróun málsins og helstu gögn: http://www.theguardian.com/world/the-nsa-files.
23 Viktor Mayer-Schönberger, Delete: The Virtue of Forgetting in the Digital Age,
Princeton: Princeton University Press, 2009, bls. 2.
GUNNÞÓRUNN GUðMUNdSdÓTTiR