Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 173
172
hefur fólk reist varnarmúra gegn gleymskunni sem fylgir dauðanum, svo
að heimildir sem gefa til kynna tilraunir til að minnast dauðra eru álitnar
af sérfræðingum í fornsögu og fornleifafræði áreiðanlegustu vísbending-
arnar um tilvist samfélags manna.“36 Þannig eru dauði og gleymska, dauði
og minni, svo þéttofin saman að könnun á því hvað verður um stafræn
spor okkar eftir dauðann gæti sagt okkur fjölmargt um hvernig minnið/
gleymskan starfar á netinu. Það hefur færst mjög í aukana að búa til minn-
ingasíður um látna ástvini, sem að hluta til leysir vandann við endalok lífs
þeirra á netinu sem komið var að hér að ofan. Þannig síður hafa ákveðna
virkni strax í kjölfarið, með minnisvinnu þátttakenda (eða ‚vina‘), sem síðar
fjarar smám saman út eftir því sem tíminn líður. Það sem eftir er eru minn-
isspor sem hafa litla sem enga virkni en hverfa ekki, síðurnar verða smám
saman vitnisburður um gleymsku. Það eru tengslin milli okkar líkamlegu
tilvistar í heiminum og tilvistar í netheimum sem skapa nýjan vanda sem
þarf að eiga við. Spurningin er því hvort rými sé fyrir gleymsku í netheim-
um og til þess að reyna að svara því er ágætt að kanna hvernig sá heimur er
í stakk búinn til að bregðast við dauðanum.
Netið gleymir ekki af sjálfu sér, það þarf í raun að þvinga það til þess
og eins og örlög Farrenkopf sýna, þá dugar dauðinn heldur ekki alltaf
til. dómstóll Evrópusambandsins virtist vera á þeirri skoðun þegar hann
dæmdi Spánverjanum Mario Costeja González í vil í maí 2014, í máls-
höfðun hans gegn Google þar sem hann fór fram á að Google fjarlægði
úr leitarvélum sínum gamla frétt um fjárhagserfiðleika sem hann hafði
lent í mörgum árum áður og hafði fyrir löngu leyst úr.37 Eins og fyrr segir
dæmdi rétturinn honum í vil og lagði þar með sitt á vogarskálarnar í baráttu
Evrópusambandsins við að koma saman lögum um ‚rétt til að gleymast‘,
sem hluta af stefnu þeirra um lög og reglur sem taka á varðveislu friðhelgi
einkalífsins, í netheimum sem og á öðrum sviðum.38 Áhrif dómsmálsins er
ómögulegt að segja fyrir um, þar vakna spurningar um hver eigi að gæta
að slíkum málum, hver borgar og hvaða áhrif þetta hefur á tjáningarfrelsi.
36 Harald Weinrich, Lethe: The Art and Critique of Forgetting, þýð. Steven Rendall,
ithaca og London: Cornell University Press, 2004, bls. 24.
37 Um þetta mál má m.a. lesa hér: Alan Travis og Charles Arthur, „EU court backs
‚right to be forgotten‘: Google must amend results on request“, The Guardian, 13.
maí 2014. Sjá http://www.theguardian.com/technology/2014/may/13/right-to-be-
forgotten-eu-court-google-search-results.
38 Upplýsingar um þetta ferli, aðdraganda og röksemdir má sjá á vefsíðu sambandsins:
http://ec.europa.eu/justice/data-protection/index_en.htm.
GUNNÞÓRUNN GUðMUNdSdÓTTiR