Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Side 177
176
dúr, meðlimirnir setja inn myndir úr skólanum og minnisvinnan hefst. Þá
setja notendur inn gamlar myndir á sínar síður og það sem gerist þegar
þær sleppa úr fjölskyldualbúminu væri hægt að kalla bæði minnisvinnu og
sönnun þess að samhengi minninganna er að breytast. Athugasemdirnar
sem skrifaðar eru við sumar myndanna sýna þetta. ‚Vinur‘ gæti sagt: „ég
man eftir þér svona,“ fjölskyldumeðlimur gæti bætt við sögu eða minningu
sem tengdist myndinni, en ‚vinir‘ sem hafa engin tengsl við minninguna
geta líka gert athugasemdir og gert uppgötvanir eða bent á tengsl sem hafa
verið falin eða gleymd. Minnisvinnan sem á sér stað á þessum miðlum er
þess vegna alltaf undir áhrifum frá þeim sem er leyft að taka þátt hverju
sinni og er því einnig þáttur í minnisstýringunni sem þar fer fram.46
Þegar við setjum myndir á netið, ‚merkjum‘ við fólk (þ.e. merkjum
aðra ‚vini‘ á myndinni og vekjum þannig athygli þeirra og mögulega ‚vina‘
þeirra á henni), gefum myndinni nafn og komum oft af stað samræðum
um það sem myndin er af. Með þessu líður okkur eins og við höfum stjórn
á okkar sjálfstjáningu, sem er þó að ákveðnu marki blekking eins og Joanna
Garde-Hansen útskýrir: „Samfélagsmiðlar eins og Facebook geta endur-
hannað að vild hvernig líf manns er skipulagt, óháð mótmælum notanda
eða [hópa] sem lýsa yfir óánægju sinni við Facebook fyrirtækið.”47 Þetta
kom skýrt í ljós þegar Facebook varð tíu ára 4. febrúar 2014 og hélt uppá
daginn með því að bjóða notendum að gera sína eigin ‚Facebook movie,‘
sem fól í sér einmitt slíka enduruppröðun á fortíð notandans. Með því að
smella á tengilinn opnaðist stutt myndskeið (rúmlega tvær mínútur að
lengd) sem hét ‚A look back‘. Undir þetta var spiluð frekar væmin tónlist
og hófst myndskeiðið á nokkrum myndum frá árinu sem notandinn skráði
sig fyrst með titlinum ‚your first moments‘. Í kjölfarið fylgdu nokkrar
‚stöður‘ undir heitinu ‚your most liked posts‘ og þá birtust fleiri myndir
‚Photos you shared‘ með tilviljanakenndu úrtaki af ljósmyndum. Fyrsti
og næstsíðasti ramminn var klippimynd af ljósmyndum, í miðjunni próf-
ílmynd notandans umkringd öðrum myndum og síðasti ramminn var af
46 Greining mín hér byggir á könnun á síðum ‚vina‘ minna á Facebook og instagram.
Vegna þess að síðurnar eru að mestu leyti lokaðar fyrir öðrum en ‚vinum‘, mun
ég ekki vitna til þeirra beint. Annar möguleiki væri að nota síður þeirra sem hafa
þær opnar fyrir öllum, en slíkar síður gegna oft ólíku hlutverki, t.d. sem einhvers
konar kynningar- eða markaðssetningarsíður og myndu því ekki gefa rétta mynd
af hinum ‚venjulega‘ notanda.
47 Joanna Garde-Hansen, „MyMemories?: Personal digital Archive Fever and
Facebook“, Save as… Digital Memories, bls. 135–150, bls. 135.
GUNNÞÓRUNN GUðMUNdSdÓTTiR