Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Side 183
182
Guðmundsson o.fl. í fararbroddi. Sem dæmi má nefna Eðlisþætti skáldsög-
unnar (1975) eftir Njörð P. Njarðvík, brautryðjandaverk á sinni tíð þar sem
nokkuð var stuðst við nýrýni; í færslu sinni um stefnuna tekur Halldór sig
til og nánast úreldir hana.2 Vésteinn Ólason er fæddur á fjórða áratugn-
um líkt og Njörður; tveimur árum eftir útgáfu Hugtaka og heita sendir
hann frá sér Bókmenntafræði handa framhaldsskólum. Þar er stigið varlega
til jarðar í umfjöllun um rússneskan formalisma og alþjóðlegan strúktúral-
isma, en þegar sporgöngumenn þessara stefna ber á góma er líkt og
lesendur séu staddir í jafningjafræðslu: „Þeir kalla starfsemi sína niðurrif
(de construction) og eru harla torskildir í framsetningu.“3 Deconstruction er
hugtak frá Jacques derrida og augljóslega hefur núverandi þýðing (afbygg-
ing) ekki fest sig í sessi hér á landi um miðjan níunda áratuginn. Niðurrif er
aftur á móti svolítið eins og þegar eiturlyfið ecstasy barst til landsins og var
þýtt helsæla í forvarnarskyni.
Að sama skapi fara þeir fóstbræður, Örnólfur og Halldór, ekki var-
hluta af hættunni sem fylgir nýjum stefnum. „Strúktúralismi er auðvitað
umdeild stefna“, skrifar sá síðarnefndi „og hafa fylgismenn hans verið
sakaðir m.a. um nauðhyggju, um að missa sjónar af manninum og van-
rækja sjálft inntak bókmenntaverka.“4 Með öðrum orðum: Nýjabrumið
í vestrænum bókmenntarannsóknum eru stefnur sem bjóða upp á nánast
fástískt samkomulag, fræðimaður sem gengst aðferðafræði formalisma eða
strúktúralisma á hönd afsalar sér þar með sálinni eða í öllu falli því sem
löngum hefur talist upphaf og endir allrar bókmenntafræðilegrar umræðu:
inntaki skáldskaparins og erindi við manneskjuna.
2 Færslan endar t.d. á lýsandi tilvitnun í René Wellek: „Nýrýnin er án efa að þrotum
komin, þó að helstu niðurstöður hennar haldi að mínum dómi gildi sínu í skáld-
skaparfræðum.“ Hugtök og heiti, bls. 196.
3 Vésteinn Ólason, Bókmenntafræði handa framhaldsskólum, Reykjavík: Mál og menn-
ing, 1985, bls. 50.
4 Halldór Guðmundsson, Hugtök og heiti, bls. 265. Örnólfur rær á svipuð mið, í
stað nauðhyggju nefnir hann vélhyggju í færslu sinni um formalisma, en kemst að
eftirfarandi niðurstöðu: „Þrátt fyrir þessa gagnrýni [á vélhyggju formalismans] ber
fræðimönnum saman um að formalismi sé mikilvægt skref í átt til þeirra aðferða í
bókmenntafræði sem hvað mest hafa sett svip sinn á rannsóknir undanfarna áratugi
(sbr. nýrýni og strúktúralismi)“, bls. 91.
gunnar Þorri PéturSSon