Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 191
190
Óþol formalista gagnvart hughyggju og húmanisma stafaði ekki síst af
því, að þeir miðuðu sig við náttúruvísindin og vildu að bókmenntafræðin
tæki vísindalegum framförum í stað þess að reiða sig á eintómar túlkanir.
Jakobson tókst hvort tveggja í senn – að skilgreina verksvið formalista og
deila á arf 19. aldar, þ.e. hina hefðbundnu, sagnfræði- eða ævisögulegu
nálgun – í grein frá árinu 1921 um nýjungar í rússneskri ljóðlist:
Verkefni vísindagreinar sem fjallar um bókmenntir er ekki bók-
menntir heldur bókmenntaleiki [líteratúrnost], þ.e.a.s. hvað það er,
sem gerir tiltekið verk að bókmenntaverki. Hingað til hafa sagn-
fræðingar bókmenntanna í grófum dráttum hegðað sér eins og lög-
regla, er hneppir allt hverfið í varðhald í hvert sinn sem hins grunaða
er leitað – og í leiðinni alla þá sem eiga leið um nágrennið. Þannig
er allt undir í tilfelli bókmenntasagnfræðingsins: tilveran, sálfræðin,
pólitíkin, heimspekin. Í stað vísindagreinar um bókmenntir hefur
orðið til hrærigrautur heimaprjónaðra aðferða… 2 2
Hugmyndin að baki strúktúralisma, að allt – ljóð, ættbálkur, auglýsing,
súludans – megi greina í endanlega fjölda tákna sem tilheyra ákveðnu kerfi
gerði jafnvel enn síður ráð fyrir huglægum þáttum á borð við inntak, merk-
ingu, vitundarsamband á milli sögupersóna o.s.frv. Ef bókmenntir eru fyrst
og fremst skoðaðar sem strúktúr, kerfi á meðal kerfa, texti á meðal texta –
glatar mál skáldskaparins smám saman sérstöðu sinni, vitundarsambandið
rofnar og áhersla fræðimanna flyst yfir á önnur svið. Þetta var innbyggt í
þá stórsögu sem Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands innleiddi með
Hugtökum og heitum og Sporum; það var aðeins tímaspursmál hvenær bók-
menntafræðin myndi snúast gegn bókmenntunum og útvista aðferðafræði
sinni til annarra greina.
Á Íslandi fjarar undan í aldarlok. Áhugi fræðimanna beinist í auknum
mæli út fyrir sviðið. Metnaðarfull safnrit á borð við Flögð og fögur skinn
(1998) og Heimur kvikmyndanna (1999) eru vísbending um það sem koma
skal: vaxtarbroddurinn færist yfir til greina á borð við menningarfræði,
kynjafræði, kvikmyndafræði, þýðingarfræði. Þegar ferill kynslóðarinnar
sem kom í kjölfar Matthíasar, Halldórs, Ástráðs o.s.frv. er skoðaður, t.d.
22 Roman Jakobson, „Novejshaja rússkaja poezíja: Postúpy k Khlebnikomy“ (Nýjung-
ar í rússneskri ljóðlist: Atlögur að Khlebníkov). Þýðing mín byggir á rafrænni út-
gáfu greinarinnar, síðast var skoðuð á vef POETiCA í des. 2015, philologos.narod.
ru/classics/jakobson-nrp.htm.
gunnar Þorri PéturSSon