Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Page 192
191
leiðandi bókmenntafræðinga á borð við Guðna Elísson, kemur þessi yfir-
færsla glögglega í ljós; við annað tækifæri væri sömuleiðis fróðlegt að rekja
ókannað en áhugavert rými sem opnast á milli skáldskapar og fræða á fyrsta
áratug 21. aldar, t.d. í höfundarverki (ekki síst útvarpsmennsku) Eiríks
Guðmundssonar.
Hvergi endurspeglast togstreitan á milli bókmenntafræði og hinna nýju
greina betur en í fyrirlestri sem Ástráður heldur á fyrsta Hugvísindaþingi
Háskóla Íslands. Hann reynir að sýna lit en á samt bágt með að leyna því,
að þegar öllu sé á botninn hvolft þyki honum mest varið í hina gömlu
hámenningu: bókmenntirnar. Þetta krump kemur fram strax í titli fyrir-
lestrarins – „Menningarfræði í ljósi bókmennta: Hugsað um ,nýtt‘ rann-
sóknasvið“ – enda fer töluvert púður í að réttlæta hann. Menningarfræði
er ekki ný af nálinni, áréttar Ástráður; sem dæmi um eldri menningarfræði
fjallar hann m.a. um fyrirlestur Gests Pálssonar, „Lífið í Reykjavík“ undir
lok 19. aldar en víkur því næst að stöðunni rétt fyrir aldamótin 2000:
Lítill vafi leikur á því að menningarfræði eigi eftir að sækja í sig
veðrið hér á landi sem annarstaðar á næstu árum. Því er áríðandi að
huga að móttökustöðvum hér; velviljuðum, forvitnum en gagnrýn-
um viðtökum – og það er ekki úr vegi að bókmenntafræðingar láti
þar til sín heyra, því ef eitthvað virðist öðru fremur vera hinumeg-
in á voginni sem sýnir mikilvægi menningarfræðinnar; þá eru það
bókmenntir og þar með bókmenntafræðin; þau eru léttvæg fundin
og sveiflast upp (til himins?) en jarðarmegin hallar á menningar-
fræðina. Enda sýnist manni stundum sem bókmenntafræðingar séu
sumir á hröðum flótta úr herbúðum sínum yfir í hinn nýja liðsafnað
– skiptir þá væntanlega litlu þótt bent sé á að góðir bókmenntafræð-
ingar hafi alltaf verið menningarfræðingar – og svei mér þá ef dauði
bókmenntanna liggur ekki í loftinu; að minnsta kosti mætti ætla að
hafinn sé hægur dauðdagi bókmennta eins og það fyrirbæri hefur
virkað á síðustu öldum – kulnun í ætt við lýsingu Gests Pálssonar
sem vitnað var til. (Raunar má sjá fyrir sér hliðstæða hrörnun sagn-
fræði og heimspeki af völdum þessa nýja skrímslis sem er að fæðast,
en ég læt öðrum eftir þær áhyggjur að sinni).23
23 Ástráður Eysteinsson, „Menningarfræði í ljósi bókmennta. Hugsað um ,nýtt‘ rann-
sóknasvið“ í Umbrot: Bókmenntir og nútími, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999, bls.
432.
ENdALOK NÚTÍMABÓKMENNTAFRæði Á ÍSLANdi