Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Page 193
192
Á sínum tíma var Ástráður leiðandi í kynningu á póstmódernisma og
póststrúktúralisma en nú blasa afleiðingarnar við. Hann lýsir menningar-
fræðinni líkt og nýrri upplýsingu, jafnvel vísbendingu „um að hugsjón
endurreisnarinnar um heildstæðan skilning á umhverfi mannsins gangi
nú í endurnýjun lífdaga“.24 Ástráður reynir að sýna hlutdeild bókmennta-
fræðinnar í þessum nýju tímum með því að leita á náðir póststrúktúralísku
mælskulistarinnar; líkt og Kristeva forðum teflir hann t.d. Bakhtín (ásamt
Walter Benjamin) á krossgötur hugvísindanna.25 En runnir voru upp tímar
bókmennta í ljósi menningarfræði og annarra, „nýrra“ greina – en í þeim
flutningum var sovéski hugsuðurinn tekinn í tollinum, eins og fróðlegt
væri að rekja við annað tækifæri.26 Þar að auki gat túlkun á Bakhtín hér-
lendis litlu breytt þar eð Bókmenntafræðistofnun hafði sniðið hana að
forsendunum sem leiddu til þess að bókmenntafræðingar yfirgáfu bók-
menntafræðina unnvörpum og dauði bókmenntanna lá í loftinu, svo stuðst
sé við orðalag Ástráðs. Neðst í tilvitnuninni löngu hér að ofan vísar hann
til menningarfræðinnar sem „þess nýja skrímslis sem er að fæðast“. Þetta
er nógu stuðandi út af fyrir sig; þegar nánar er að gáð virðist Ástráður vitna
undir rós til ritsmíðar sem ljær umræddum orðum enn meiri þunga.
Fyrsta Hugvísindaþing Háskóla Íslands var haldið dagana 18.–19. októ-
ber 1996. Þrjátíu árum fyrr upp á dag hófst önnur ráðstefna þar sem síðasti
fyrirlesari lauk máli sínu með myrkum orðum, dularfullum skilaboðum
sem áttu eftir birtast síðar í Sporum og ráða ýmsu um þróun hugvísindanna
á 20. öld.
Hér vaknar því eins konar spurning, við skulum kalla hana sögulega,
og í dag hillir einungis undir getnað hennar, mótun, meðgöngu og
fæðingarhríðir. ég viðhef þessi orð vissulega með tilliti til barnsfæð-
ingar; en einnig til þeirra í samfélaginu er ég tel mig enn til, þeirra
er líta undan andspænis því ónefnanlega, sem eins og hlýtur að ger-
ast þegar fæðing stendur yfir, getur aðeins boðað komu sína sem
tegund ekki-tegundar, þ.e. í formlausri, hljóðri, hvítvoðungslegri og
hrollvekjandi mynd ófreskjunnar.27
24 Sama heimild, bls. 430.
25 Sama heimild, bls. 446.
26 Hvörf verða í viðtökusögu á Bakhtín hérlendis frá og með inngangi Benedikts
Hjartarsonar að orðlist skáldsögunnar: Úrval greina og bókakafla, þýð. Jón Ólafsson,
Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2005.
27 Jacques derrida, „Formgerð, tákn og leikur í orðræðu mannvísindanna,“ þýð.
Garðar Baldvinsson, Spor í bókmenntafræði 20. aldar, bls. 152.
gunnar Þorri PéturSSon