Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 195
194
Áhersla á tungumálið og orðræðuna varð í öllu falli alltumlykjandi; í
umræddum fyrirlestri boðar derrida hvort tveggja af spámannskrafti. Il n’y a
pas de hors-texte, eins og hann lýsti yfir ári eftir erindi sitt í Bandaríkjunum.31
Á póststrúktúralískum tímum öðlaðist tungumálið í sjálfu sér svo mikið
vald að helst minnir á vélhyggju formalismans í færslu Örnólfs Thorssonar
um stefnuna í Hugtökum og heitum eða nauðhyggju strúktúralismans sem
Halldór Guðmundsson nefnir í sömu bók. Róttæk yfirfærsla á merkingu
frá sjálfi og vitund til texta reyndist afar gjöful til skemmri tíma. Í krafti
hennar kunngjörði Barthes dauða höfundarins, Kristeva útfærði marg-
röddun sem textatengsl; síðar var Helga Kress meðal þeirra sem veitti
þessum straumum hingað til lands, beitti kenningum nútímabókmennta-
fræði til að umpóla sýn á Íslendinga sögur o.s.frv. Í stærra samhengi var aftur
á móti óumflýjanlegt að bókmenntafræði á formalískum, strúktúralískum
eða póststrúktúralískum forsendum myndi snúast gegn viðfangsefni sínu
– bókmenntunum – enda reyndist hrun bókmenntafræðinnar alþjóðlegt,32
þótt tíðindin berist ekki fyrr en seint og um síðir til landsins.33
31 Jacques derrida, De la grammatologie, París: éditions de minuit, 1967, bls. 227.
Þessi fleyga setning hefur stundum – umdeilanlega – verið þýdd: Það er ekkert utan
textans.
32 Sjá t.d. Galin Tihanov, „Why did Modern Literary Theory Originate in Central
and Eastern Europe? (And Why is it Now dead?)“, Common Knowledge 10 (2004):
61–81.
33 Grein mín byggir á samnefndum fyrirlestri sem haldinn var á Hugvísindaþingi
2015. Tveimur mánuðum síðar (13. maí 2015) birtist á vef Kjarnans grein Hermanns
Stefánssonar, „Eymdarstuna úr ættarmóti“. Þar vekur greinarhöfundur athygli á
bágri stöðu bókmenntafræðinnar, setur í samhengi við nýlegar mannaráðningar
og fjölskyldutengsl við bókmenntafræðideild Háskóla Íslands o.fl. Niðurlagið er
svohljóðandi:
Bókmenntafræði er dauð. Hún hefur enga sögn um bókmenntir landsins og
veruleika. Hún er, með heiðarlegum undantekningum, nokkurs konar ættar-
mót sem nötrar af ótta við sannkallaðar bókmenntir, fjallar enda sárasjaldan
um bókmenntir, skrifar stundum greinar um háskólasamfélagið sem engan
varðar neitt um og dælir út endalausum greinum um Vantrú, um bíómyndir,
fabúlerar um táknaheim samtímans í útvatnaðri menningarfræði og skrifar svo
heimskulega um umgjörð bóka og útgáfumál en gagnvart alvöru bókmenntum
hefur fjölskylduboðið við bókmenntafræðideild Háskóla Íslands að mestu gef-
ist upp. Bókmenntafræði er blaður. Þetta er búið. Ekkert eftir nema að grípa
kindabyssu og skjóta þetta.
gunnar Þorri PéturSSon