Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Page 196
195
Uppgjör
Í dag mætti vitanlega nefna stefnur á borð við hugfræði, vistfræði eða
rannsóknir tengdar bókmenntum og minni sem eiga sína málsvara innan
Háskóla Íslands, en fylgja í veigamiklum atriðum ekki þeim formalísku,
strúktúralísku og póststrúktúralísku forsendum sem liggja nútímabók-
menntafræði til grundvallar. Eigi að síður hvílir bókmenntafræðin og að
miklu leyti hugvísindin enn á þeirri stórsögu sem Bókmenntafræðistofnun
Háskóla Íslands kanóníseraði á níunda og tíunda áratug liðinnar aldar. Árið
2003 hleypti stofnunin ritröðinni Þýðingar af stokkunum. Um var að ræða
augljóst framhald eða útvíkkun á verkefni Spora og sérstök áhersla lögð á
fræðimenn sem forðum var spyrt saman í póststrúktúralísku kanónuna. Í
annars lofsamlegri umfjöllun um fyrstu sex bækur ritraðarinnar gagnrýnir
Þröstur Helgason aðstandendur Þýðinga fyrir ákveðinn skort á gagnrýn-
inni afstöðu til efnisins: „Ef póstmódernísku höfundarnir fjórir eru hafðir
sérstaklega í huga þá má benda á að póstmódernisminn hefur fengið gríð-
arlega ágjöf síðustu ár og ófáir telja hann einungis barn síns tíma. Umræða
um þetta hefði verið vel þegin í inngöngum og raunar eðlileg.“34 Þýðingar
lögðu upp laupana 2009 án þess að fram hefði farið sú um ræða sem Þröstur
kallaði eftir. Að sama skapi hefur þörf á uppgjöri við upphaf, uppgang og
upplausn nútímabókmenntafræði á Íslandi sjaldan verið brýnni en nú.
Á táningsárum 21. aldar virðist bókmenntafræðin á svipuðum stað
og Roman Jakobson lýsti fyrir tæpum hundrað árum, nema hvað nú er
það ekki hinn húmaníski heldur andhúmaníski arfur hugvísindanna sem
hneppt hefur sviðið í varðhald. Saga nútímabókmenntafræði er uppruna-
saga póststrúktúralismans.35 Það sem torveldar gagnrýni á ríkjandi ástand
innan greinarinnar má þegar merkja í formála Garðars Baldvinssonar að
Sporum. Hin póststrúktúralíska arfleifð hvílir á grunni sem hafnar grunni,
byggir á afbyggingu; á viðmiði sem afmiðjar sjálft sig, gagnrýnir stórsögur
og stigveldi en smíðar samt hvort tveggja og staðsetur sig í öndvegi. Póst-
strúktúralismi og póstmódernismi eru þar að auki afar inklúsív fyrirbæri:
Andóf gegn þessum stefnum verður jafnóðum hluti af orðræðu þeirra.
Á hinn bóginn blasir nú við það sem þegar var ljóst við árþúsundamót;
34 Þröstur Helgason, „Aukin velta í íslenskri fræðihugsun“, Ritið 2/2004: 125–135,
hér bls. 132.
35 Ágætt dæmi er kennslubók í áðurnefndu grunnnámskeiði, Stefnum í bókmennta-
fræði. Hún er eftir Hans Bertens og nefnist Literary Theory: The Basics, Glasgow:
Routledge, 2008[2001].
ENdALOK NÚTÍMABÓKMENNTAFRæði Á ÍSLANdi