Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Page 199
198
á umliðnum öldum.3 Það má því teljast til tíðinda nú skuli vera komin út
bók um íslenska samtímaheimspeki.4
Intentio operis
Heimspekistofnun hefur nú í rúm tuttugu ár gefið út rit um margvís-
leg efni innan greinarinnar, s.s. greinasöfn, þýðingar, mónógrafíur eða
endurbættar meistaraprófsritgerðir, ýmist á sviði heimspekisögu eða um
ólík viðfangsefni samtímaheimspeki. Í tuttugustu bókinni í þessari ritröð,
greinasafninu Inquiring into Contemporary Icelandic Philosophy (hér eftir
In quiring), er í fyrsta sinn fjallað ítarlega um það heimspekistarf sem farið
hefur fram innan veggja Háskóla Íslands. Um er að ræða safn greina á
ensku um flesta heimspekinga sem þar hafa starfað undanfarna áratugi.
Ritstjóri greinasafnsins er Gabriel Malenfant (f. 1983) en hann varð fyrst-
ur manna til að verja doktorsritgerð í heimspeki við íslenskan háskóla
árið 2012. Eins og rakið er í formála hans að bókinni er hún sprottin af
algjörum skorti á umfjöllun um íslenska samtímaheimspeki og hversu erf-
itt Malenfant reyndist að afla sér upplýsinga um hana þar sem hann hefði
ekki vald á íslenskri tungu og því aðeins aðgang að litlum hluta þess sem
hér hefur verið ritað af heimspekilegum toga.
Að frátöldum sögulegum inngangi um heimspeki á Íslandi fram að
stofnun heimspekiskorar skiptist bókin í kafla um einstaka heimspek-
inga sem yngri höfundar, einkum fyrrum nemendur þeirra, hafa samið.
Höfundarnir eru álíka margir og viðfangsefnin og því lítið um að sam-
eiginlegir þræðir í hugsun íslenskra heimspekinga séu dregnir fram í
bókinni. Lesendum er eftirlátið að mynda slíkar tengingar og svara því
hvort „íslensk heimspeki“ eigi sér einhver séreinkenni þvert á þær ólíku
heimspekilegu hefðir sem menn eru skólaðir í. Þó er það yfirlýst mark-
mið með ritinu (a) að veita „yfirlit yfir fjölbreytt heimspekilegt landslag“
hér á landi með inngangi um „sögulegan og menningarlegan bakgrunn
íslenskrar samtímaheimspeki“, (b) „að bregða vissu ljósi á áhrif íslenskra
heimspekinga, bæði innanlands og utan“ og (c) „vísa bæði til fjölda verka
sem íslenskir heimspekingar hafa samið á íslensku og … á ýmsum öðrum
3 Sjá lista í viðauka við þessa grein.
4 Rétt er að upplýsa lesendur um að sá sem þetta ritar starfar hjá sama bókaforlagi og
gefur bókina út, án þess þó að hafa komið neitt að verkinu fyrr en við lokafrágang
þess. Þeim davíð Kristinssyni, Erni Ólafssyni, Freyju Gunnlaugsdóttur, Jóni Ólafs-
syni og Sigurjóni Árna Eyjólfssyni eru færðar þakkir fyrir gagnlegar ábendingar
um hvað mætti betur fara í greininni.
egill aRnaRson