Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 219
218
ingu Simmels á peningahagkerfinu og menningarlegum og þjóðfélagslegum
birtingarmyndum þess, en þær hugmyndir tók hann saman með skipulegum
hætti í ritinu Philosophie des Geldes (Heimspeki peninganna), sem kom út árið
1900.3 Greining Simmels á peningahagkerfi nútímans er um margt lýsandi
fyrir áherslurnar í síðari skrifum hans, hún snýr ekki aðeins að peningahag-
kerfinu sem slíku heldur að heild menningarinnar. Verkið lýsir þróun menn-
ingarinnar á grundvelli greiningar á þessum eina þætti hennar, sem vitaskuld
vegur þungt í þróun nútímaþjóðfélagsins.
Ritgerðin sem hér birtist í íslenskri þýðingu heitir á frummálinu „die
Großstädte und das Geistesleben“ og kom út 1903.4 Simmel leggur út af
riti sínu Philosophie des Geldes og nýtir fræðilegan grunn þeirrar rannsóknar í
greiningu á stórborg nútímans. Tengslin á milli peningahagkerfisins og stór-
borgarinnar blasa við í lýsingunni, enda bendir Simmel á að stórborgirnar
hafi „frá upphafi verið miðstöðvar peningahagkerfisins vegna þess að marg-
breytileiki og samþjöppun viðskiptanna ljær gjaldmiðlinum mikilvægi sem
smátæk viðskipti sveitalífsins bjóða ekki upp á“. Jafnframt reynast stórborgin,
peningahagkerfið og „drottnunarvald skilningsins“ í nútímanum nátengd, að
því leyti að þau fela í sér „algjörlega hlutræna meðferð á fólki og hlutum, þar
sem formlegt réttlæti fer oft saman við vægðarlausa harðneskju“. Stórborgin
er í þessum skilningi félagsleg birtingarmynd þjóðfélagsgerðar sem byggir
á hagkerfi peninganna, sem „hola hlutina miskunnarlaust að innan, svipta
þá sérstöðu þeirra, eigindlegu gildi og því sem ekki verður lagt að jöfnu við
annað“. Þannig afhjúpar stórborgin víðtækara ferli sem Simmel tengir framrás
hlutlægrar menningar.5
Í skrifum Simmels verður hol og merkingarsnauð heimsmynd nútímans þó
ekki skilyrðislaust að útgangspunkti fyrir upphafningu glataðrar fortíðar með
tilheyrandi fordæmingu nútímans. Verkefni fræðimannsins er öllu heldur að
skilja og ná áttum í þessari menningu yfirborðsins, enda er „hlutverk okkar
3 Georg Simmel, Gesamtausgabe, 6. bindi: Philosophie des Geldes, ritstj. david P. Frisby
og Klaus Christian Köhnke, Frankfurt am Main: Suhrkamp, 1989.
4 Þýðingin er gerð eftir útgáfu textans í: Georg Simmel, Individualismus der modernen
Zeit und andere soziologische Abhandlungen, ritstj. Otthein Rammstedt, Frankfurt am
Main: Suhrkamp, 2008, bls. 319–333.
5 Bent hefur verið á að lýsing Simmels á stórborginni er mjög mótuð af stöðu og
hlutverki Berlínar, fæðingarborgar Simmels, sem miðstöðvar tækni- og iðnþróunar
á þessum tíma. Fyrir greinargóða umfjöllun um þetta samhengi, sjá: Lothar Müller,
„The Beauty of the Metropolis: Toward an Aesthetic Urbanism in Turn-of-the-
Century Berlin“, Berlin: Culture and Metropolis, ritstj. Charles W. Haxthausen og
Heidrun Suhr, Minneapolis: University of Minnesota Press, 1990, bls. 37–57.
geoRg siMMel