Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Qupperneq 222
221
nútímamenningar“ sem „einkennist af yfirburðum þess sem kalla má hinn
hlutlæga anda andspænis hinum huglæga“. Ofríki hinnar hlutlægu menningar
átti eftir að verða æ fyrirferðameira viðfangsefni í síðari skrifum höfundarins,
þegar sjónar horn hans mótaðist með skýrari hætti af hefð lífheimspekinn-
ar, sem gegndi veigamiklu hlutverki í evrópskri menningarumræðu á þessum
tíma – ekki síst fyrir tilstilli Henris Bergson og áhrifamikilla verka hans.
Í þekktri ritgerð frá árinu 1911 lýsti Simmel framrás hlutlægrar menn-
ingar sem „harmleik menningarinnar“, er fæli í sér sína eigin upplausn og tor-
tímingu. „Raunverulegur harmleikur menningarinnar“ var að mati Simmels
fólginn í því að „með tortímingu hennar koma fram örlög sem búa innra
með henni sjálfri og eru ef svo má segja rökrétt þróun formgerðarinnar“.13
Harmleikurinn helgast með öðrum orðum af því að sköpun mannsins líkamn-
ast í hlutlægum birtingarmyndum menningarinnar, sem öðlast sjálfstætt líf og
verða á endanum að stirðnuðum afurðum andlegrar starfsemi. Með fjölda-
framleiðslu og þjóðfélagsþróun nútímans hverfur hinn andlegi og mannlegi
þáttur að baki menningarframleiðslunni, í stað þess að ganga til samræðu við
heim fortíðarinnar stendur nútímamaðurinn frammi fyrir holum menningar-
afurðum og hverfist þannig um sína eigin hugsun, er svo að segja fanginn í
vítahring merkingarleysis og eigin þankagangs. Greining Simmels á „harmleik
menningarinnar“, sem kallast með augljósum hætti á við gagnrýni á iðnfram-
leiðslu nútímans og hugmyndir um afturhvarf til handverks og rótgróinna
framleiðsluhátta í skrifum höfunda eins og Williams Morris og Johns Ruskin,14
er að mörgu leyti rökrétt framhald þeirrar greiningar sem hann setur fram í
„Stórborgir og andlegt líf“, þar sem hugveran birtist umlukin framandlegum
menningarafurðum og síbreytilegum hughrifum. Rótin liggur í peningahag-
kerfinu, sem hefur leitt til þess að notagildi hlutanna hefur í sívaxandi mæli
vikið fyrir skiptigildinu. Hér nálgast Simmel ekki aðeins greiningu Marx á
hinu kapítalíska hagkerfi og kenningu hans um blætiseðli vörunnar, grein-
ing hans á hlutlægri menningu nútímans kallast jafnframt á við þá gagnrýni á
hlutgervingu menningarinnar sem síðar varð meginútgangspunktur í þekktu
riti Adornos og Max Horkheimer um „díalektík upplýsingarinnar“.15 Hlutgert
umhverfi menningarinnar, þar sem hlutirnir hafa verið sviptir notagildi og
13 Georg Simmel, „der Begriff und die Tragödie der Kultur”, Philosophische Kultur,
bls. 195–219, hér bls. 215.
14 Sjá Habermas, „Simmel als Zeitdiagnostiker“, bls. 16.
15 Max Horkheimer og Theodor W. Adorno, Dialektik der Aufklärung. Philosophische
Fragmente, Theodor W. Adorno, Gesammelte Schriften, 3. bindi, Frankfurt am
Main: Suhrkamp, 1997.
STÓRBORGiR OG ANdLEGT LÍF