Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Side 225
224
stöðu með spurningum sem varða einungis verðmæti. Öll tilfinningatengsl
manna á milli byggjast á einstaklingseðli, skilningsbundin tengsl fjalla eins
um einstaklinga og tölur, líkt og um sé að ræða einingar sem engu skipta
nema út frá afurðum sem hægt er að meta með hlutlægum aðferðum. Á
sama hátt byggir stórborgarbúinn á útreikningum með sölumenn sína,
kaupendur, þjónustuaðila og iðulega fólkið sem hann á samskipti við vegna
félagslegra kvaða. Þetta er ólíkt því sem gerist í smærri samfélögum, þar
sem óhjákvæmilegt er að einstaklingar þekkist og samskiptin eru innilegri,
þar sem ekki er aðeins lagt hlutlægt mat á framlag og mótframlag. Frá
sjónarhorni efnahagssálfræðinnar skiptir hér mestu að við frumstæðari
aðstæður er framleitt fyrir viðskiptavin sem pantar vöru, þannig að fram-
leiðandinn og kaupandinn þekkjast. Nútímastórborgin nærist aftur á móti
næstum alfarið á framleiðslu fyrir markað, þ.e.a.s. fyrir óþekkta aðila sem
hinn eiginlegi framleiðandi sér aldrei. Fyrir vikið verða hagsmunir beggja
miskunnarlaust hlutlægir og óræð verðmæti persónulegra tengsla setja
skilningsbundnum útreikningum beggja aðila og efnahagslegri sjálfhverfu
þeirra engar skorður. Þetta er svo nátengt peningahagkerfinu, sem ríkir í
stórborgunum og hefur rutt úr vegi síðustu leifum heimaframleiðslu og
beinna vöruskipta um leið og það hefur dregið úr daglegum samskiptum
við viðskiptavininn, að enginn getur lengur sagt til um hvort peningahag-
kerfið spratt af þessu sálræna og vitsmunalega hugarfari eða hvort hugar-
farið er sprottið af peningahagkerfinu. Menn vita aðeins fyrir víst að lífs-
hættir stórborgarinnar eru frjóasti jarðvegur þessa samspils, en máli mínu
til stuðnings læt ég hér nægja að vísa til athugasemdar merkasta stjórnar-
skrársagnfræðings Englendinga: í gervallri sögu Englands eru engin dæmi
um að Lundúnir hafi þjónað sem hjarta landsins, en þær hafa oft þjónað
sem skilningur þess og ávallt sem peningabuddan!
Sömu sálrænu straumar koma saman, að nokkru leyti á dæmigerðan
hátt, í að því er virðist merkingarlitlum þætti á yfirborði lífsins. Andlegt líf
nútímans byggir í sívaxandi mæli á útreikningum. Nákvæmir útreikningar
hversdagslífsins, sem peningahagkerfið hefur innleitt, eiga sér samsvörun í
hugsjón náttúruvísindanna, að breyta heiminum í reikningsdæmi og binda
hvern hluta hans í stærðfræðiformúlu. Peningahagkerfið hefur komið því
til leiðar að dagar ótalmargra einstaklinga snúast um útreikninga, mat og
tölulegar niðurstöður og smættað eigindleg gildi niður í megindleg. Á sama
hátt og almenn útbreiðsla vasaúra hefur leitt til nákvæmni á yfirborðinu
hefur útreikningseðli peninganna innleitt nákvæmni í afstöðu lífsþáttanna,
geoRg siMMel