Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Síða 9
8
sjónarmiðin tekin til umfjöllunar samhliða því að nýtt fræðasvið er kynnt
til sögunnar. Rök verða jafnframt færð fyrir því að sem verk og textar séu
leikir óaðskiljanlegir frá menningarlega skilgreindu túlkunarsamhengi.
I. Segja leikir sögur?
Árið 1986 voru tveir tölvuleikir gefnir út sem við fyrstu sýn virðast eiga
fátt sameiginlegt. Annar var Annals of Rome, skipulags- og herkænskuleikur
þar sem leikmaður tekur sér bólfestu í „borgarlíkama“ Rómarborgar til
forna. Þetta er og var óvenjuleg nálgunarleið í leikjum af þessari gerð.
Algengt er að úthluta spilara hlutverki einræðisherra eða hershöfðingja
í valdabaráttu af einhverju tagi en sjónarhorn leiksins er í þessu tilviki
stofnanalegt og aldrei tengt tiltekinni persónu heldur frekar eins konar
„borgarvitund“.1 „Borgarvitundin“ hefur á „tilfinningunni“ hvernig lífinu
vindur fram innan sinna marka en getur yfirsést ýmislegt og þar kemur
að framlagi leikmannsins sem þarf að vera vakandi fyrir þörfum ólíkra
„líkamshluta“ borgarinnar. Mikilvægt er að hafa auga með ríkisráðinu og
viðhorfum alþýðunnar, svo dæmi séu nefnd. Að skattpína alþýðuna um
of er ekki vænlegt til árangurs því það styrkir byltingaröflin. Markmið
spilarans er að tryggja afkomu borgarinnar í aldanna rás og gæta þess að
1 Annals of Rome var framleiddur af breska leikjafyrirtækinu Personal Software
Services [PSS] sem ekki skartaði ýkja góðu orðspori um miðjan níunda áratug-
inn – svo vægt sé til orða tekið. Fyrirtækið sérhæfði sig nefnilega í hálfgerðum
hugverkastuldi. Eftir „hæfilegan“ biðtíma setti fyrirtækið á markað eftirhermur af
vinsælum leikjum annarra fyrirtækja. Í meðförum þeirra varð Frogger (1981, jap.
フロッガー) að leik sem heitir Hopper (1982) og Pac-Man (1980, jap. パックマン)
varð Vacuumania (1984). Með Annals of Rome flutti fyrirtækið sig hins vegar skör
ofar í virðingarstiganum, jafnvel tveimur eða þremur, og þótt vísindaskáldsagna-
höfundinum orson Scott Card hafi mislíkað leikurinn („maður blindast á því að
píra sífellt augun á skjá sem er fullur af óskiljanlegum tölvukóða“), var honum tekið
fagnandi víðast hvar („birtir heillandi mynd af framrás og sögu heimsveldis“, sagði
M. Evan Brooks til að mynda í tölvuleikjatímaritinu Computer Gaming World).
Annals of Rome var jafnframt fyrsta innleggið í þríleik sem nefnist Wargamer Series
en næst kom Sorcerer Lord (1987) og svo Firezone (1988). Um miður gott orð-
spor PSS má lesa í Troy Goodfellow, „Annals of Rome (1986)“, Flash of Steel, 14.
mars 2008, sótt 3. október 2014 af http://flashofsteel.com/index.php/2008/03/14/
annals-of-rome-1986/; orson Scott Card, „Gameplay“, Compute, apríl 1989, bls.
14, sótt 3. október af https://archive.org/stream/1989-04-compute-magazine/
Compute_Issue_107_1989_Apr#page/n11/mode/2up/search/orson; M. Evan
Brooks. „Annals of Rome. Datasoft Markets an „Ambitious“ Game“, Computer
Gaming World, apríl 1989, bls. 22, sótt 3. október af pdf.textfiles.com/zines/
CGW/1989_04_issue58.pdf.
BJöRN ÞÓR VILHJÁLMSSoN oG NöKKVI JARL BJARNASoN