Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Side 26
25
sem var að „frásagnarsinnarnir“ komu úr öðrum deildum; enskudeildum,
kvikmyndafræði, fjölmiðlafræði. Svo lengi sem slíkt fyrirkomulag þætti
fullnægjandi væri harla vonlítið að koma á fót sérstökum og aðgreindum
akademískum sviðum sem sérhæfðu sig í leikjafræði.
Einn af forvígismönnum spilunarhyggjunnar, Gonzalo Frasca, lagði
með þessum hætti út af grein eftir sig sem í dag þykir einn af lykiltextum
fræðanna: „Greinin mín lagði til að hugtakið „lúdólógía“ yrði notað til
að lýsa fræðasviði sem enn var ekki til en myndi beina sjónum að leikja-
rannsóknum almennt og rannsóknum á tölvuleikjum sérstaklega. Þetta
var ákall eftir fræðilegum verkfærum sem gætu gegnt sama hlutverki fyrir
leikjafræði og frásagnarfræðin gerði fyrir frásögur.“36 Í annarri grein segir
Frasca (og sýnir að hann var meðal varkárustu og orðvörustu þátttakenda
í deilunni): „Við leggjum til að tölvuleikir og net-textar (e. cybertext) verði
rannsakaðir sem leikir. Ætlun okkar er ekki að koma í staðinn fyrir frásagn-
arfræðilegu nálgunina heldur bæta við hana. Við viljum auka skilninginn á
sambandinu milli frásagnar og tölvuleikja; það sem er sameiginlegt og það
sem skilur í sundur.“37 Mikilvægt er að hafa í huga að sú friðsæla vinsemd
sem skín í gegnum orð Frasca, þessi opna fræðilega afstaða sem hann ræðir
um, afstaða sem engu hafnar fyrirfram, var ávallt hluti af spilunarhyggj-
unni en féll hins vegar í skuggann af málflutningi herskárri talsmanna.
Spilunarsinnarnir, sem voru fyrirferðarmiklir á fyrstu árum greinarinnar,
töldu skýra aðgreiningu frá öðrum greinum túlkunarvísinda styrkja stöðu
leikjafræðinnar. Með því að leggja áherslu á formgerð eða afstrakt reglu-
kerfi með jafn afdráttarlausum hætti og raun bar vitni komu þeir sumum í
opna skjöldu en því varð heldur ekki neitað að í skrifum þeirra var fjallað
36 Gonzalo Frasca, „Ludologists love stories, too: notes from a debate that never
took place“, Ludology.org, 2003, byggt á erindi á DiGRA málþingi 2003, bls. 2, sótt
27. október 2014 af http://www.ludology.org/articles/Frasca_LevelUp2003.pdf.
Hugtakið sem birtist hér að ofan sem „net-texti“ er þýðing á „cybertext“ í þeirri
merkingu sem Espen Aarseth leggur í það, til að mynda í bókinni Cybertext: Per-
spectives on Ergodic Literature (Baltimore: Johns Hopkins University Press, 1997)
þar sem fjallað er um textagerð sem hefur ákveðna uppbyggingu. okkur finnst
„net-texti“ lýsa ágætlega fjöllínulegri uppbyggingu slíkra texta, þar sem margir
þræðir eru tengdir saman og mynda flókið tengslanet.
37 Gonzola Frasca, „Ludology meets narrative: similitudes and differences between
(video)games and narrative,“ upphaflega gefið út á finnsku sem: „Ludologia kohtaa
narratologian,“ Parnasso, 3. 1999, sótt 27. október 2014 í enskri útgáfu af: http://
www.ludology.org/articles/ludology.htm.
FRÁSöGN EðA FoRMGERð?