Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Side 70
69
Framúrstefnan
Kunnustu leikstjórar framúrstefnumynda á gullaldarskeiði þeirra á milli-
stríðsárunum voru velkunnir listamenn á borð við Man Ray, Fernand
Léger og Salvador Dali, sem gripu í kvikmyndamiðilinn samfara ann-
arri listsköpun.21 Þar greinir einnig á milli framúrstefnunnar og hreyfinga
kvikmyndaiðnaðarins sem ræddar voru hér á undan en leikstjórar hinna
síðarnefndu voru fyrst og fremst kvikmyndagerðarmenn þótt þeir væru
undir áhrifum almennra listhreyfinga. Þá voru kvikmyndir framúrstefn-
unnar ekki sýndar í hefðbundnum kvikmyndahúsum heldur á vegum
nýtilkominna kvikmyndaklúbba og fyrir tilstilli listamannanna sjálfra á
listsýningum eða samkomum hverskonar, auk þess sem um þær var fjallað í
sérstökum kvikmyndatímaritum sem stofnað var til víðs vegar um Evrópu
á þessum tíma.22
Í yfirlitsriti um kvikmyndasöguna skipta David Bordwell og Kristin
Thompson framúrstefnumyndum þriðja áratugarins í sex hreyfingar:
afstrakt hreyfimyndir, dada, súrrealisma, cinéma pur, borgarsinfóníur og
loks tilraunakenndar frásagnarmyndir.23 Þótt að um kennslubók sé að
ræða (eða kannski einmitt þess vegna) hefur flokkun þeirra Bordwells
og Thompsons haft mikil áhrif og aðrir fræðimenn fylgt fordæmi þeirra.
Fyrstu fjórar hreyfingarnar tengjast náið myndlist – og eru verk þeirra
allajafna stutt að lengd – en þær seinni tvær síður. Borgarsinfóníurnar eru
fyrst og fremst heimildarmyndir þótt þær búi yfir ljóðrænum blæ, og síð-
astnefnda hreyfingin er frásagnardrifin líkt og nafn hennar gefur til kynna
þótt tilraunakennd sé (eitt helsta dæmi þeirra Bordwells og Thompsons
um þá hreyfingu er einmitt Á mörkunum, kvikmynd aðstandenda Close-
up).
21 Rétt er að geta þess að það er alls ekki sjálfgefið að ræða framúrstefnu undir for-
merkjum módernisma þótt margir fræðimenn leyfi sér að slá hugtökunum saman
með einum eða öðrum hætti. Benedikt Hjartarson hefur til að mynda lýst þeirri
skoðun sinni við mig að engilsaxneska módernismahugtakið sé óþarft og valdi
margvíslegum vandkvæðum í umfjöllun um evrópskar framúrstefnuhreyfingar. Sjá
frekari umfjöllun um framúrstefnuhugtakið í inngangi Benedikts að Yfirlýsingum:
Evrópsku framúrstefnunni auk þess sem ritið hefur að geyma almennar lýsingar á
helstu framúrstefnuhreyfingunum. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2001,
bls. 20–33.
22 Sjá úttekt Malte Hagener, Moving Forward, Looking Back: The European Avant-Garde
and the Invention of Film Culture 1919–1939, Amsterdam: University of Amsterdam
Press, 2007, bls. 41–120.
23 David Bordwell og Kristin Thompson, Film History, þriðja útgáfa, New York:
McGraw-Hill, 2009, bls. 158–69.
FRÁ FRAMÚRSTEFNU TIL HÁTÍðARMYNDA