Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 76
75
Hinir ólíku listamenn sem hér hafa verið nefndir til sögunnar eiga það
sameiginlegt að hafa staðið utan hins eiginlega kvikmyndaiðnaðar (þótt
Buñuel og Clair hafi að vísu átt eftir að vinna innan hans síðar meir).
Þeir tilheyrðu listaheiminum almennt séð. Hér liggja rætur þess sem síðar
verður nefnt tilraunamyndagerð og inniheldur jafnt listamenn sem í anda
þriðja áratugarins beittu fyrir sig kvikmyndamiðlinum í bland við aðrar
listgreinar, en Andy Warhol er án efa kunnastur þeirra, og listamenn sem
sérhæfðu sig í kvikmyndamiðlinum (og vídeólist síðar meir), eins og Stan
Brakhage. Lítil hefð er þó fyrir því að flokka tilraunamyndagerð til mód-
ernisma eða póstmódernisma (skilgreiningar á Warhol sem helsta lista-
manni póstmódernismans eiga rætur í umræðu um listir almennt fremur
en um kvikmyndir). Ástæðurnar má eflaust að einhverju leyti rekja til þess
að tilraunamyndin sjálf varð eftir seinna stríð að regnhlífarhugtaki með
margvíslegum undirflokkum (líkt og dans- eða formgerðarmyndum).27
27 Í þessari grein á ég fullt í fangi með að útlista hugtakið módernismi í tengslum við
kvikmyndaumfjöllun, en rétt er að geta þess að hugtakanotkun skyldra hugtaka er
einnig nokkuð á reiki. Svo dæmi sé tekið þá er greinasafni um tilraunamyndir skipt
í fjögur tímabil með eftirfarandi hætti: framúrstefnumyndir á árunum 1920–59,
tilraunamyndir á sjöunda áratugi, formgerðarmyndir á þeim áttunda, og jað-
armyndir eftirleiðis. Wheeler Winston Dixon og Gwendolyn Audrey Foster, ritstj.,
Experimental Cinema: The Film Reader, London og New York: Routledge, 2002.
Inngangsgreinin um formgerðarmyndir er sótt til Sitney sem í Visionary Film: The
American Avant-Garde 1943–2000 fellir þær einfaldlega undir framúrstefnuhugtak-
ið, sem honum hefur ekki þótt ástæða til að takmarka í tíma þótt fjarlægðin sé orðin
talsverð í þriðju og nýjustu útgáfunni, en sú fyrsta koma út 1974. oxford: oxford
University Press, 2002. Þá þykir Sitney ekki tiltökumál að ræða suma bandarísku
framúrstefnuleikstjórana undir formerkjum módernisma í Modernist Montage, en þó
virðist ljóst að hann telji aðeins leiknar frásagnarmyndir geta tilheyrt síðarnefnda
hugtakinu sem er þar af leiðandi einnig yfirgripsmeira. Michael o’Pray lætur
hins vegar lönd og leið flestar takmarkanir framúrstefnumyndahugtaksins í sam-
antekt sinni Avant-Garde Films: Forms, Themes and Passions, (London: Wallflower,
2003) þar sem hann flokkar breskar heimildarmyndir millistríðsáranna og listrænu
frásagnarmyndina til þeirra. Af þessu leiðir jafnframt að aðgreining tilrauna-, fram-
úrstefnu- og módernískra mynda getur verið æði óljós. Engu að síður myndi ég
telja almenna sátt um að nota framúrstefnuhugtakið fyrst og fremst um þær myndir
sem í þessari grein eru ræddar sem slíkar, nema að það sé þá sérstaklega aðgreint
líkt og til dæmis hjá Sitney sem „bandaríska framúrstefnan“, og tilraunamyndir
sem almennt regnhlífarhugtak, hvort sem það nær yfir kvikmyndasöguna alla eða
hreyfingar sem leysa framúrstefnumyndir millistríðsáranna af hólmi. Líkt og greina
má af yfirferð minni á módernismi í kvikmyndagerð enn síður fast land undir fót-
unum.
FRÁ FRAMÚRSTEFNU TIL HÁTÍðARMYNDA